27% upplifa kulnunareinkenni oft og 22% íhugað veikindaleyfi

Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Niðurstöður starfsmannakönnunar Landspítalans  sýna að 27% höfðu upplifað kulnunareinkenni oft eða mjög oft, 28% höfðu stundum fundið slík einkenni, 26% höfðu fundið þau sjaldan og 19% aldrei.

Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við skriflegri fyrirspurn Evu Sjafnar Helgadóttur, varaþingmanns Pírata, í dag um kulnun starfsfólks á Landspítala.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nær helmingur upplifað mikla þreytu

Í svari heilbrigðisráðherra kom einnig fram að samkvæmt áðurnefndri starfsmannakönnun hefðu 22% verið mjög eða frekar sammála því að hafa íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi vegna kulnunareinkenna og/eða örmögnunar á síðustu 12 mánuðum. Þegar spurt var um ýmis streitueinkenni, var niðurstaða könnunarinnar sú að 42,8% hafa mjög oft eða oft upplifað mikla þreytu.

Stjórnendur Landspítalans hafa lagt fyrir starfsmenn aðra könnun, þar sem meðal annars er spurt um streitueinkenni. Niðurstöður úr henni eru væntanlegar á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert