Eftirskjálftar hafa mælst í nótt og í morgun eftir að jarðskjálfti, 3,5 að stærð, varð klukkan 1:51 í nótt, tæpum átta kílómetrum norðnorðvestur af Gjögurtá.
Stærsti eftirskjálftinn til þessa varð klukkan hálfsex í morgun sem var 2,8 að stærð. Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að líklegt sé að það verði stærsti eftirskjálftinn.
Veðurstofu hafa ekki borist tilkynningar um að eftirskjálftinn hafi fundist en þó nokkuð margar tilkynningar bárust um að jarðskjálftinn í nótt hafi fundist, sérstaklega á Siglufirði og Húsavík.
Salóme segir að jörð hafi ekki skolfið í nokkurn tíma á þessum slóðum en minnir á að mikil virkni var á svæðinu í júní árið 2020. „Þá var töluvert mikil virkni á þessu svæði og í Eyjarfjarðarálnum,“ segir hún.
„Það má segja kannski að að þetta sé endurtekið efni; við sjáum landris í Þorbirni og svo smá virkni til að minna á sig þarna fyrir norðan,“ segir Salóme.