Afkoma ríkisins neikvæð um 130 milljarða króna

Ríkisreikningur hefur verið birtur fyrir árið 2021.
Ríkisreikningur hefur verið birtur fyrir árið 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afkoma ríkissjóðs á síðasta ári var neikvæð um 130 milljarða króna en í uppgjöri ríkisreiknings kemur fram að þrátt fyrir vaxandi umsvif hafi djúpstæð efnahagslægð af völdum heimsfaraldurs Covid-19 haft sjáanleg áhrif á hagkerfið. Halli ríkissjóðs árið 2021 er þó 14 milljörðum minni en árið á undan þegar hann var 144 milljarðar króna.

Í ríkisreikningi ársins 2021, sem var birtur í dag, kemur fram að gjöld til sjúkrahúsaþjónustu hafi numið 109 milljörðum króna, þá námu gjöld til vinnumarkaðs og atvinnuleysis 97 milljörðum króna, gjöld til málefna aldraðra námu 92 milljörðum króna, gjöld til örorku og málefni fatlaðs fólks námu 81 milljörðum króna og gjöld til heilbrigðismála utan sjúkrahúsa námu 65 milljörðum króna. Voru þetta fimm stærstu málefnasviðin á ríkisreikningnum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að hægja þurfi á vexti útgjalda og treysta grunninn á ný til að verja kröftuga uppbyggingu síðustu ára. Hann segir mikil tækifæri felast í bættum rekstri, nýtingu nýrrar tækni og stafvæðingu til að veita enn betri þjónustu.

88 milljarða hækkun rekstrargjalda

Rekstrargjöld námu 1.078 milljarða króna sem er 88 milljarða hækkun frá árinu á undan.

Heildareignir í árslok voru 2.784 milljarðar króna, skuldir voru 2.618 milljarðar króna og eigið fé var 166 milljarðar króna.

Fjárfesting hefur aukist um 56% á tveggja ára tímabili en aukninguna má rekja til umfangsmikilla aðgerða sem ráðist var í til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs og styrkja atvinnustigið í landinu.

Fjárfesting ársins 2021 var 67 milljarðar króna og hækkar um 19 milljarða frá 2020 og um 24 milljarða frá árinu 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert