Alelda bifreið á Völlunum

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um svartan reyk sem barst frá Völlunum í Hafnarfirði. Í ljós kom að þar var bifreið alelda og er grunur um íkveikju. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni.

Tilkynnt var um eld í annarri bifreið í hverfi 105 í Reykjavík, sem reyndist svo minniháttar.

Datt af hlaupahjóli og fótbrotnaði

Barn datt af rafhlaupahjóli í Kópavogi og fótbrotnaði illa, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Barnið var flutt á slysadeild til frekari aðhlynningar.

Maður datt af rafhlaupahjóli í hverfi 105 í Reykjavík. Hann hlaut skurð á enni og síðar kom í ljós að hann var ölvaður.

Tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki í Kópavogi en þar var búið að brjóta rúðu og fara inn. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.

Reyndi að komast inn í hús

Lögreglunni barst tilkynning um að ölvaður einstaklingur væri að banka og reyna að komast inn í hús í hverfi 201 í Kópavogi. Hann hafði farið húsavillt og var honum komið heim til sín. 

Tilkynnt var um eld í Árbænum. Kom í ljós að þar voru ungmenni í góðum gír að grilla á útigrilli.

Neitaði að greiða fyrir reikninginn

Einstaklingur á veitingahúsi í miðbænum neitaði að greiða reikninginn sinn og var hann kærður fyrir fjársvik.

Tilkynnt var um ógnandi mann sem hafði neitað að borga fyrir far með leigubíl og stungið af. Lögreglan hafði upp á manninum stuttu síðar og var hann kærður fyrir fjársvik.

Kveikt var í ruslatunnu í Breiðholti. Lögreglan sprautaði á eldinn með slökkvitæki og stuttu síðar kom slökkvilið á vettvang. Tvær ungar stúlkur sem fylgdust með aðgerðum fengu að spreyta sig á slökkvistarfinu og fengu að sprauta á eldinn ásamt slökkviliði.

Slökkviliðið að störfum á Völlunum.
Slökkviliðið að störfum á Völlunum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert