Senda fólk ekki til Nígeríu og Ungverjalands

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hákon Pálsson

„Af þessum 197 eru 42 einstaklingar sem hefði átt að senda til Nígeríu og Ungverjalands en það er ekki verið að senda til þessara landa, þannig augljóslega er ekki verið að senda það fólk,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Greining á samsetningu hóps flóttafólks sem vísa á úr landi stendur enn yfir.

„Ennfremur er þarna hópur barna og verið er að skoða núna hvort þeirra mál eru komin á efnismeðferðartíma, því það er auðvitað styttri tímafrestur gefinn fyrir fjölskyldur með börn.“

Spurð hvort fyrirhugaðar brottvísanir verði stöðvaðar segir Katrín að það verði metið út frá aðstæðum hvers og eins.

Sé þvert á nálgunina

Þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram sameiginlegt frumvarp til að bregðast við fjöldabrottvísun flóttafólks. Lagt er til að umsækjendur sem sóttu um vernd á meðan kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst og hafa verið hér á landi í 18 mánuði eða lengur, fái dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

„Ég hef ekki lesið það frumvarp en mér skilst svona samkvæmt endursögn að það snúist í raun og veru bara um að horfa á hópinn sem hóp en ekki taka hvern og einn út og það er auðvitað svolítið þvert á nálgunina eins og við höfum haft hana, það er að segja við reynum að taka tillit til aðstæðna hvers og eins,“ segir Katrín.

„Ég held að mikilvægt næsta skref í þessum málum sé, og mér skilst að það standi til, að allsherjar- og menntamálanefnd þingsins ætlar að fara yfir þetta og fá einmitt þessar upplýsingar sem við erum búin að vera að fá.

Eins og þetta horfir við mér þá lítur þetta nú út fyrir að vera umtalsvert fámennari hópur og að það sé verið að taka tillit til aðstæðna einstaklinga eins og ætlunin er með lögunum og þar er ég einmitt að bíða eftir frekari upplýsingum um málefni barnafólks og líka þessara einstaklinga sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert