Níu slösuðust í átta umferðarslysum

Alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu í liðinni …
Alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu í liðinni viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Níu vegfarendur slösuðust í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu, að því sem fram kemur í tilkynningu lögreglu.

Hjól, rafskútur og syfjaður ökumaður

Tilkynnt var um fjögur umferðarslys mánudaginn 23. maí. Að morgni var reiðhjólamaður á leið sinni yfir merkta gangbraut við Setbergsskóla, þegar árekstur varð með honum og bifreið. Var hann fluttur á slysadeild í kjölfarið. Stuttu seinna varð árekstur bifreiðar og rafmagnshlaupahjóls á Kringlumýrarbraut. 

Þá var bifreið ekið suður Reykjanesbraut, en norðan við Vífilsstaðaveg var bifreiðinni ekið á öryggisenda vegriðs sem staðsett er á umferðareyju. Ökumaður kvaðst hafa sofnað eða dottið út og rankað við sér þegar árekstur varð.  Hann var fluttur á slysadeild, en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum lyfja. 

Annað umferðaróhapp varð á sömu leið um kvöldmatarleytið, en þá var bifreið ekið inn í hringtorg við Lækjargötu þar sem fyrir voru bifreiðar, bæði á ytri og innri hring.

Framúrakstur endaði í framanákeyrslu

Bifreið var ekið norður Vatnsendaveg um hádegisbil á fimmtudag, yfir á ranga akrein þar sem hún lenti framan á bifreið úr gagnstæðri átt. 

Ökumaðurinn sem ók yfir á rangan vegarhelming, kvaðst hafa verið að taka framúr reiðhjólamanni sem var á veginum skömmu áður en árekstur varð. Báðir ökumenn voru fluttir á slysadeild. 

Hélt hann hefði sett í P

Bifhjóli var ekið suður aðrein inn á Reykjanesbraut á föstudag, þegar ökumaður nauðhemlaði og féll í götuna. Rann hann áfram með hjólinu á bifreið og þaðan út á vegöxlina, þar sem hjólið endaði á vegriði. Ökumaður bifhjólsins kvaðst skyndilega hafa séð að umferð fyrir framan hann var stopp og því brugðist við með þessum hætti. 

Síðla sama dag var bifreið ekið inn í bifreiðastæði á Garðatogi. Ökumaður taldi sig hafa sett bifreiðina í stöðugír (P), á sjálfskiptingu, þegar hann steig út úr bifreiðinni.  

Þegar ökumaður var „kominn hálfur út“ þá byrjaði bifreiðin að renna aftur á bak svo ökumaður féll í götuna. Vitni kvað ökumanninn hafa lent að hluta undir bifreiðinni, en vitnið færði bifreiðina úr bakkgír (R) á sjálfsskiptingu,  í stöðugír (P).  Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Skófla skapaði árekstur

Bifhjól ók aftan á bifreið á leið sinni norður Reykjanesbraut að Bústaðavegi á laugardag. 

Ökumaður bifreiðarinnar kvaðst hafa ekið á hægri akrein þegar bifreið, sem var fyrir framan hann á miðju akrein, ók á skóflu. Skóflan hafi skotist yfir á hægri akrein og brást hann þá við með því að snögghemla, til að aka ekki á skófluna. Þá hafi bifhjólið ekið aftan á bifreið hans. 

Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild, en hann var klæddur í viðeigandi öryggisfatnað þegar slysið átti sér stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert