Á drekum norður ísbreiðu Grænlandsjökuls

Halldór á fleygiferð um ísbreiðuna.
Halldór á fleygiferð um ísbreiðuna. Ljósmynd/Höddi

Á sama tíma og tveir íslenskir gönguskíðahópar voru á ferð annars vegar frá austri til vesturs og hins vegar frá vestur til austurs yfir ísbreiðu Grænlands, voru þeir Höskuldur Tryggvason og Halldór Meyer á annarskonar ferð yfir jökulinn. Leið þeirra var nokkuð lengri, eða samtals 1.800 km frá suðri og norður til Qaanaaq (sem áður var kallað Thule), en þeir notuðust við svokallaða dreka (e. kite) sem drógu þá áfram með aðstoð vindsins. Ýmislegt kom upp á í ferðinni, svo sem erfitt færi og mikill kuldi, en auk þess brotnaði hluti af púlkunum sem þeir notuðust við, þeir misstu búnað og nauðsynleg lyf og þá brotnaði gikkur á byssu sem þeir höfðu meðferðis ef kæmi til þess að hvítabjörn yrði á vegi þeirra.

(f.v.) Halldór Meyer og Höskuldur Tryggvason hafa stundað drekasportið í …
(f.v.) Halldór Meyer og Höskuldur Tryggvason hafa stundað drekasportið í nokkur ár saman, en þetta var lengsta ferðin þeirra hingað til. Ljósmynd/Höddi

„Ef hann gefur sig er bara „game over““

Félagarnir hafa undanfarin ár verið duglegir að ferðast um og leika sér á drekunum hér á Íslandi. Höskuldur, eða Höddi eins og hann er oftast kallaður, segir í samtali við mbl.is að sjálfur hafi hann byrjað fyrir um 15 árum á sjódreka, en fyrir um sex árum hafi hann einnig farið að stunda það sama á snjónum. Hugmyndin um þessa ferð og leiðarval kom upp hjá þeim í kringum síðustu áramót og segir Höskuldur að í kjölfarið hafi farið af stað mikil skipulagsvinna. Það þurfi að vanda sérstaklega til verka með allan búnað, sérstaklega grunnbúnaðinn sem er nauðsynlegur fyrir ferðina í heild. „Ef hann gefur sig er bara „game over“,“ segir hann.

Á 30 km hraða yfir skafla sem virka eins og þvottabretti

Leiðin frá suðri til norður var valin út frá veðurfari, en þarna er ríkjandi suðaustan vindátt að sögn Höskuldar. Hann tekur þó fram að ríkjandi vindátt hafi ákveðna ókosti eins og svokallaða rifskafla sem lítið er um hér á Íslandi, allavega í sama mæli og þeir þurftu að glíma við á Grænlandsjökli. Þessir skaflar myndast þegar vindurinn kemur langtímum saman úr sömu átt og fara þeir að líkjast reglulegum öldudölum þar sem hver skafl er frá nokkrum sentímetrum upp í yfir hálfan metra á hæð. Höskuldur segir best að lýsa þessu þannig að þegar þeir fari yfir landslagið á kannski 30 km/klst hraða þá virki þessar öldur eins og þvottabretti sem flestir Íslendingar þekkja af ferðum um malarvegi og fjallaslóða. Meira en helmingur þessara 1.800 km var þakinn rifsköflum sem þessum, en þó í mismiklum mæli.

Rifskaflarnir eru frá nokkrum sentímetrum upp í hálfan metra á …
Rifskaflarnir eru frá nokkrum sentímetrum upp í hálfan metra á hæð. Nokkra daga fóru þeir tugi og jafnvel upp í yfir hundrað km nánast eingöngu á svona ójöfnum sem líkja má við að keyra yfir þvottabretti á malarvegum. Ljósmynd/Höddi

„Frekar brútalt fyrir líkamann

Þeir flugu til Kangerlussuaq, sem er á vesturströnd Grænlands, nokkuð fyrir norðan Nuuk en sunnan Diskóflóa. Þaðan var þeim svo flogið með þyrlu upp að gömlu ratsjárstöðinni DYE 2 sem Bandaríkjamenn byggðu um miðja síðustu öld, en er ný yfirgefin. Höskuldur segir að erfitt hefði verið að ganga upp á ísbreiðuna við Kangerlussuaq og nota svo drekann til að komast að DYE-2 stöðinni sem væri til suðausturs, en það væri á móti ríkjandi vindátt. Við DYE 2-stöðina voru drekarnir settir á loft 5. maí og ferðin til norðurs hófst.

„Þessir skaflar eru þvert á leiðina og meirihluta leiðarinnar þarf maður að glíma við þá,“ segir Höskuldur. „Á 15 til 30 km hraða verður þetta frekar brútalt fyrir líkamann, hné og læri. Þá er þetta líka slæmt fyrir búnaðinn og púlkurnar og það var ýmislegt sem leystist nánast upp í öreindir,“ bætir hann við.

DYE-2 ratsjárstöðin á Grænlandsjökli. Yfirgefin stöð sem Bandaríkjamenn reistu um …
DYE-2 ratsjárstöðin á Grænlandsjökli. Yfirgefin stöð sem Bandaríkjamenn reistu um miðja síðustu öld. Ljósmynd/Höddi

Misstu verulegan hluta af eldsneytinu og brutu þrjár púlkur

Hvor um sig var með búnað og mat í tveimur púlkum, um 80 kg sem þeir drógu. Til vara voru þeir með sitt hvora púlkuna og var það eins gott því samtals brotnuðu þrjár púlkur í ferðinni í öllu hnjaskinu. Þá segir hann að matvælin hafi að nokkru leyti orðið að hrærigraut í öllu skakinu og hver einasta pilla sem þeir voru með í litla apótekinu sínu hafi poppað úr álspjöldunum og í lokin hafi þeir eiginlega bara verið með einn stóran lyfjakokteil í poka. Tveir af þremur bensínbrúsum gáfu sig einnig í öllu hnjaskinu og misstu þeir þar með verulegan hluta af eldsneytinu sem þeir komu með, en það er nauðsynlegt til að bræða snjó og elda mat.

Þeir bundu tvær púlkur saman, auk þess sem ein aukapúlka …
Þeir bundu tvær púlkur saman, auk þess sem ein aukapúlka var aukalega ofan í einni púlkunni hjá hvorum þeirra. Hér höfðu púlkurnar farið á hvolf eftir eitthvað stökkið og eins og sjá má er sú sem er hægra megin á myndinni brotin eftir hamaganginn. Ljósmynd/Höddi

„Svo var ég svo óheppinn í eitt skiptið þegar púlkurnar höfðu farið á hvolf – sem gerðist reglulega þegar þær lenda ekki rétt í stökkunum – að einn rennilásinn á pokanum mínum opnaðist. Ég tók ekki eftir því strax, en svo þegar það uppgötvaðist kom í ljós að ég hafði tapað talverðu af búnaði, t.d. hlýjum lúffum og eiginlega flestum aukafatnaði. Þá var þetta bara farið,“ segir Höskuldur.

Það var hins vegar ekki það verst því Höskuldur er með vanvirkan skjaldkirtil og tekur við því töflur. Með í þeim búnaði sem hann missti var einmitt skammturinn af þeim töflum í ferðinni. „Þegar maður tekur þær ekki má meðal annars búast við aukinni þreytu og kuldatilfinningu,“ segir hann, en á leiðinni var alla jafna -30°C á nóttunni og -20°C til -26°C á daginn. Þetta atvik átti sér stað eftir um viku og þá voru enn eftir um 12 dagar þangað til hann komst á litlu heilsugæsluna í Qaanaaq þar sem hann gat fengið slíkar töflur á ný.

Leiðin lengdist um 200 km

Bein leið frá upphafspunktinum að Qaanaaq er um 1.600 km, en Höskuldur segir að með dreka þurfi stundum að laga stefnu að vindi og þá hafi þeir talsvert reynt að leita betri leiðar í gegnum rifskaflana, meðal annars með því að leita hærra upp á jökulinn, en almennt voru þeir í 2.000-2.500 metra hæð. Leiðin lengdist því sem nemur um 200 km.

Frá því að þeir yfirgáfu ratsjárstöðina og þangað til þeir komust af ísbreiðunni upp af Qaanaaq segir Höskuldur að það hafi ekki verið að finna eitt einasta kennileyti. „Við þurftum nokkrum sinnum að ferðast í algjörri snjóblindu þar sem okkar helsta áskorun var að tapa ekki sjónar af hvor öðrum, en annar var jú með tjaldið,“ segir hann.

Leið þeirra Hödda og Halldórs frá DYE-2 stöðinni norðvestur að …
Leið þeirra Hödda og Halldórs frá DYE-2 stöðinni norðvestur að Qaanaaq. Kort/mbl.is

Þegar um 50 km voru ófarnir niður af jöklinum slógu þeir upp tjaldbúðum í algjörri snjóblindu. Nokkru seinna dettur vindurinn svo alveg niður og fljótlega rofar til. „Þá fáum við þessa æðislegu sýn yfir fjörðinn og fjöllin þarna,“ segir Höskuldur. „Það var kærkomið að fá eitthvað að horfa á,“ bætir hann hlægjandi við.

Upphaflega höfðu þeir áætlað að hægt væri að fara þessa leið á um 18-25 dögum og því náðu þeir að klára leiðangurinn í fyrra falli. Þeir höfðu hins vegar tekið ríflega af vistum og voru með mat fyrir 30 daga enda bendir Höskuldur á að ferð sem þessi með dreka snúist öll um hagstæðan vind og vindleysi. Þannig hafi þeir í tvo daga nánast verið í algjöru logni og á slíkum dögum hafi þeir jafnvel ákveðið að lengja daga inn í nóttina eða vakna um miðja nótt til að leggja af stað áður en vindurinn myndi alveg detta niður.

Drekarnir sem þeir voru með voru frá 7 upp í …
Drekarnir sem þeir voru með voru frá 7 upp í 18 fermetrar að stærð, en notast er við mismunandi stærðir eftir því hversu mikill vindur er. Drekinn er tengdur niður í skíðamanninn í gegnum stýrið sem sést hér næst á myndinni. Ljósmynd/Höddi

Dýnurnar gáfu sig og drekar rifnuðu

Þeir félagar voru á ferðinni í 5-12 klst flesta daga að sögn Höskuldar, en til viðbótar við það fór mikill tími í að gera sig tilbúinn í byrjun dags, tjalda í lok dags og bræða snjó. Lítill tími var því fyrir eitthvað annað. „Við höfðum tekið spil með ef okkur færi að leiðast, en við náðum samt bara að spila tvisvar,“ segir Höskuldur um frítímann í ferð sem þessari.

Eins og fyrr segir varð tjón á allskonar búnaði í ferðinni. Höskuldur segir að þeir hafi ákveðið að treysta á að skíðin myndu halda, en hins vegar hafi þeir tekið með auka bindingar ef þær myndu klikka. Ekki kom þó til þess, en af öðrum grunnbúnaði hafi þeir báðir lent í því að uppblásnar svefndýnur sem þeir voru með hafi gefið sig. Báðar dýnurnar voru með hátt einangrunargildi og þurftu þeir á seinni hluta ferðarinnar að láta sér nægja að útbúa aðra einangrun undir sig til að einangra kulda jökulsins frá sér á nóttunni. Höskuldur segir að þó hafi þeim tekist að laga aðra dýnun þegar leið á og fékk Höskuldur, sem er sá kulvísari, að njóta oftar góðs af því.

Félagarnir komu upp tjaldi á kvöldin og gistu í um …
Félagarnir komu upp tjaldi á kvöldin og gistu í um -30°C kulda flestar nætur, en það var nokkuð kaldara en þeir höfðu átt von á fyrir ferðina. Ljósmynd/Höddi

Þeir hafi jafnframt lent í allskonar tjóni með drekana, bæði með slitnar línur og rifna dreka sem þurfti að gera við. Báðir voru með nokkra auka dreka í mismunandi stærðum, allt frá 7 fermetrum upp í 18 fermetra, sem þeir skiptu út eftir því hversu sterkur vindurinn var. 

Áttu von á -30°C, en þá sem undantekningu en ekki reglu

Kuldastigið á Grænlandsjökli meðan þeir voru þar var nokkuð kaldara en þeir höfðu átt von á. Eins og fyrr segir var það um -30°C á nóttunni og -20°C til -26°C á daginn. „Við áttum alveg von á -30°C, en þá sem undantekningu en ekki reglu,“ segir Höskuldur. Þeir hafi því verið nokkuð frostbitnir í andliti í lok ferðar og puttarnir hafi jafnframt verið orðnir nokkuð dofnir og tilfinningalausir. Það helgist meðal annars af því að þeir hafi oft þurft að vera í þunnum hönskum þegar þeir voru að reyna að leysa úr línuflækjum og öðru sem tengdist drekunum. „Við fundum loks almennilega aftur fyrir puttunum þegar við vorum komnir í byggð á ný,“ segir hann.

Þá hafi leiðangurinn einnig tekið sinn toll á líkamanum að öðru leiti en báðir hafi þeir léttst mikið á þessum 18 dögum. Það hafi gerst þrátt fyrir að þeir hafi borðað mikið og vel á morgnana og aftur á kvöldin. „En svo voru þetta mjög langir dagar á milli þar sem lítill tími gafst til að borða.“ Segir Höskuldur að mikill tími geti farið í að ná drekunum niður og koma þeim á loft aftur. Þá kólnar manni einnig fljótt þegar stoppað er í þessum kulda. Því hafi þeir aðallega verið að reyna að troða í sig Snickers-stykkjum og næringu sem var hægt að borða næstum á ferðinni.

Á ferð yfir ísbreiðuna á 1.800 km ferðalaginu.
Á ferð yfir ísbreiðuna á 1.800 km ferðalaginu. Ljósmynd/Höddi

Á ferðinni í 21 klst síðasta daginn

Seinasti dagurinn var svo lengsti dagurinn, en þá fóru þeir á fætur klukkan tvö að nóttu og ferðuðust síðustu kílómetrana eins langt og þeir gátu í átt að strandlengjunni. Þá tók við langur kafli þar sem þeir þurftu að draga púlkurnar yfir blöndu af snjó og melum og svo að lokum að lækka sig um 400 metra niður af einu fjalli áður en þeir komust niður að sjávarmáli. Þurftu þeir meðal annars að aftengja púlkurnar og selflytja þær sem Höskuldur segir að hafi verið mjög tímafrekt.

„Við áttum ekki von á því að það væru ísbirnir á ferð þar sem við kæmum niður og það olli því nokkrum óróa að rekast á ísbjarnarspor þegar við komum niður, vitandi að riffillinn var ónýtur. En við vorum fegnir að bangsi lét ekki sjá sig,“ segir hann, en gikkurinn á rifflinum hafði skemmst á ferðalaginu og voru þeir þar með skopvopnalausir á lokadögum ferðarinnar. Þeir tjölduðu svo klukkan ellefu um kvöld, eða eftir 21 klst dag. Voru þeir svo sóttir morguninn eftir, 23. maí og fluttir á snjósleðum til Qaanaaq, þaðan sem við tók 4-5 daga ferðalag til Íslands með samtals fjórum flugum.

Á daginn var hitastigið oft í kringum -20°C til -26°C …
Á daginn var hitastigið oft í kringum -20°C til -26°C og því nauðsynlegt að reyna að verja sig sem best frá kuldanum. Ljósmynd/Höddi

Örugglega ekki seinasti leiðangurinn

Höskuldur segir að þetta sé örugglega ekki seinasti leiðangur hans af þessu tagi, en hann sé þó ekki kominn svo langt að ákveða hvað taki við næst. „Núna er ég bara ánægður að komast aftur í siðmenninguna og í faðm fjölskyldunnar,“ segir hann eftir 18 daga á ísnum. „Við vorum báðir orðnir svolítið útjaskaðir og þreyttir, en erum að komast í form á ný,“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert