Hitaveitulögn frá Hellisheiðarvirkjun fór í sundur

Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiðarvirkjun. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Önnur af tveimur Reykjaæðum, hitaveitulögnum sem flytja heitt vatn frá Hellisheiðarvirkjun til Reykjavíkur, er farin í sundur og er verið að undirbúa viðgerð.

„Það flæddi heitt vatn og það er verið að undirbúa viðgerð. Það er búið að tryggja öryggi og annað á staðnum,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Ekki er útlit fyrir að skortur verði á heitu vatni hjá fólki á höfuðborgarsvæðinu, að sögn Ólafar. „Við erum að skipta út vatni og taka meira úr lághitaborholum á höfuðborgarsvæðinu og minna frá virkjunum.“

Ekki er vitað hvað viðgerðin tekur langan tíma. „Það tekur náttúrulega töluverðan tíma bara að tæma lögnina svo hægt sé að vinna í henni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert