Hvorki boðið vott né þurrt eftir 7 tíma seinkun

Umferðin um Leifsstöð hefur aukist talsvert á síðustu vikum og …
Umferðin um Leifsstöð hefur aukist talsvert á síðustu vikum og mánuðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halla Eide Kristínardóttir, farþegi sem átti að fara með flugvél Icelandair til Kaupmannahafnar klukkan ellefu í morgun frá Keflavíkurflugvelli, kveðst afar ósátt við viðbrögð flugfélagsins eftir að fluginu var seinkað í tvígang. Komst hún ekki um borð fyrr en klukkan var farin að ganga sex síðdegis.

Fjölskyldu Höllu var hvorki boðið vott né þurrt eftir margra klukkustunda bið og erfiðlega gekk að setja sig í samband við starfsmann flugfélagsins. Þá segir hún að engar skýringar hafi verið gefnar á töfunum, einungis sms og tölvupóstar um að fluginu hafi verið seinkað. Hvergi hafi komið fram í skilaboðum hvernig hægt væri að hafa samband við flugfélagið vegna tafanna.

Upplýsingafulltrúi Icelandair segir mikið álag vera á flugvöllum um þessar mundir, þegar ferðaþjónustan sé að fara aftur af stað. Flugfélagið geri allt sem í þess valdi standi til þess að koma til móts við farþega.

Var númer 37 í röðinni

Halla kveðst hafa mætt með fjölskylduna út á flugvöll klukkan níu í morgun fyrir flug sem átti að fara klukkan ellefu. Eftir að ljóst varð að flugi þeirra hafði verið seinkað, og biðin var orðin talsvert löng, vildi hún fá að setja sig í samband við flugfélagið. Enginn hafi þó verið til staðar á vellinum.

Þegar hún reyndi síðan að hringja í þjónustuverið til að athuga hvort fjölskyldan fengi mögulega matarmiða, kom í ljós að hún var númer 37 í röðinni. Þótti henni líklegra að hún yrði komin til Kaupmannahafnar þegar hún næði loks í starfsmann símleiðis.

Mikið álag

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir mikið álag vera á þjónustuver flugfélagsins um þessar mundir. Víða séu seinkanir og tafir á flugvöllum nú, þegar ferðaþjónustan er að fara mjög bratt af stað eftir samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldurs Covid-19. Hefur það haft margvísleg áhrif.

Hún segir að gripið sé til ýmissa úrræða á flugvöllum þegar farþegar hafa verið látnir bíða vegna tafa. Til að mynda séu gefnir matarmiðar. Ákveðinn tími verði þó að líða þar til því úrræði sé beitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert