Vonar að Krabbameinsfélagið vinni með stjórnvöldum

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mbl.is/Unnur Karen

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segist, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is, vonast til þess að Krabbameinsfélagið sé tilbúið að starfa með yfirvöldum í þeirri vegferð að koma aðstöðunni á dag­deild blóð- og krabba­meins­lækn­inga í viðeigandi horf til framtíðar.

Krabbameinsfélag Íslands hefur dregið til baka boð um 450 milljóna króna fjárframlag til Landspítalans sem ætlað var nýrri deild þar sem stjórnvöld voru ekki viljug til að koma henni á fót.

Hægt að taka ákvarðanir eftir þarfagreiningu

Þá segir jafnframt í svari ráðherra að beðið sé ástandsskýrslu sem unnin er á vegum NLSH (Nýs Landspítala).

„Sömuleiðis hef ég falið þeim að vinna þarfagreiningu fyrir starfsemi dag- og göngudeildar krabbameinssjúkra í nýju skipulagi innan Hringbrautar. Í þeirri vinnu verður núverandi húsnæði og starfsemi dag- og göngudeildarinnar yfirfarin sem er grunnur að gerð þarfagreiningar. Í kjölfarið á þeirri vinnu verður hægt að taka frekari ákvarðanir um uppbyggingu og endurbætur,“ segir í svarinu.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagins, að félagið hefði fengið þau svör frá stjórnvöldum að unnið væri að greiningarvinnu á því hvert framtíðarhlutverk Landspítalans ætti að vera. Þá bætti hún við að deildin sem um ræðir gæti ekki beðið á meðan sú vinna væri í gangi því ástandið væri brýnt.

Vinna að því að leysa stöðuna á spítalanum

Spurður hvað sé verið að gera til að mæta mönnunarvanda á spítalanum segir Willum stjórnvöld vinna að því að leysa stöðuna á spítalanum og draga úr álaginu til að mynda með því að taka fleiri legurými í notkun, skipulagsbreytingar á Vífilstöðum, nýting rýma sem hafa verið fjármögnuð á Landakoti, og samningar við Eir, Sólvang, Árborg og Reykjalund.

Ástandinu á bráðadeild hefur meðal annars verið lýst sem því versta í sögu deildarinnar.

„Mönnun er viðvarandi áskorun og við treystum á takmarkaðan mannauð, sem þarf einnig sína hvíld og endurheimt. Það er og verður krefjandi verkefni, það krefst útsjónarsemi og skipulags,“ segir í svari Willums. Þá bætir hann því við að mennta þurfi jafnframt fleiri til framtíðar og nú þegar hafi verið fjölgað námsplássum í hjúkrunarræði.

„Landsráð, stefnumótandi vettvangur um menntun og mönnun heilbrigðisstarfsfólk, er að vinna að þarfagreiningu og áætlun til þess að mæta þessari miklu framtíðaráskorun sem reyndar öll heilbrigðiskerfi heimsins eru að horfast í augu við,“ segir að lokum í svarinu.

Willum gaf ekki kost á viðtali símleiðis í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert