27,5 milljarðar í ívilnanir vegna vistvænna bíla

27,5 milljarðar hafa verið veittir í skattaívilnanir vegna vistvænna bíla. …
27,5 milljarðar hafa verið veittir í skattaívilnanir vegna vistvænna bíla. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

27,5 milljarðar hafa verið veittir í skattaívilnanir vegna vistvænna bíla á árinum 2012-2022. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins þar sem segir að mikill árangur hafi náðst í orkuskiptum fólksbílaflotans. Þá sé Ísland orðið meðal fremstu þjóða heimsvísu í rafbílavæðingu.

Hlutfall vistvænna bíla í nýskráningum var 60% á fyrstu fimm mánuðum ársins. Segir að þróunin sé mikilvægur liður í markmiði stjórnvalda um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum í síðasta lagi árið 2040 og verði „óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja“.

Ívilnanir skatta til kaupa á vistvænum bílum hafa leitt til þess að tekjur ríkissjóðs af skattlagningu ökutækja og eldsneytis hafa dregist verulega saman. Tekjurnar muni fara lækkandi að öllu óbreyttu.


Vinna við endurskoðun hafin

Segir einnig að mikil tækifæri felist í að innleiða einfaldara og skilvirkara tekjuöflunarkerfi, sem taki mið af breyttum tímum og byltingunni í orkuskiptum í samgöngum. Vinna við slíka endurskoðun er þegar hafin. Stefnt er að því að fyrirkomulag gjaldtöku miðist í auknum mæli við notkun og samræmist þörf á áframhaldandi útgjöldum við nýframkvæmdir, viðhald og rekstur vegakerfisins. Til stendur að innleiða slíkt tekjuöflunarkerfi á kjörtímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert