Fór inn á afgirta jörð og fláði lamb

Ljósmynd/Aðsend

Agnesi Klöru Jónsdóttur var heldur betur brugðið í gær en þá kom hún að lambskinni sem hafði verið flegið af tveggja vikna lambi á afgirtri jörðinni sinni í Fljótsdal á Austurlandi.

Í samtali við mbl.is segir Agnes að hún hafi  fundið lambshræið eftir að hafa séð hundinn sinn sitja úti á túni. Hún fór þá að kanna hvers vegna hundurinn sæti svona einn og sá þá fljótlega að þar lægi skinnið af tveggja vikna lambi. Lá þá skinnið af lambinu á miðju túninu á meðal kindanna á jörðinni en Agnes bendir á að hrafnarnir eða tófa hafi getað fært það eitthvað til þannig lambið var ekki endilega flegið á þessum tiltekna stað.

„Þar var skinnið af lambinu, bara rétt svo lappirnar og hausinn eftir,“ segir Klara. 

Lambið sem var flegið er lamb í eigu Agnesar og eiginmanns hennar Björgólfs Jónssonar, en þau ætluðu ekki að trúa þessu þegar þau sáu þetta fyrst. 

„Við hugsuðum fyrst „bara nei það getur ekki verið að einhver hafi komið hingað og flegið lamb og tekið skrokkinn“,“ segir Agnes og bætir við að um mjög vönduð vinnubrögð sé að ræða að hennar mati.

Ljósmynd/Aðsend

Bendir Agnes á að hún gæti sjálf ekki flegið lamb svona vel og að maðurinn hennar sem hefur flegið lömb og unnið í sláturhúsi noti sömu handtök. „Þetta er ekki einhver sem datt allt í einu í hug að elta niður lamb og flá það,“ segir Agnes.

Líklegast að ferðamenn hafi verið að verki

Finnst Agnesi líklegast að ferðamenn hafi verið þarna að verki enda getur hún ekki ímyndað sér að einhver í nágrenni við þau geti gert svona lagað. 

„Það hafa alveg bændur hérna fengið ferðamenn upp að dyrum hjá sér að spyrja hvort þeir megi fara að elta og drepa lömb á svæðinu,“ segir Agnes og bendir á að lambið hafi aðeins verið tveggja vikna og því ekki mikinn mat að fá upp úr krafsinu.

Bætir Agnes við að þetta hafi gerst í Breiðdalnum fyrir nokkrum árum síðan þar sem sást til hóp manna elta lamb niður og skera það á háls og flá það. 

Ljósmynd/Aðsend

Afgirt og einangrað svæði

Segir hún það vera ótrúlegt að einhver hafi gert sér sérstaka ferð til þeirra til að fremja þetta verk og bendir hún á að það þurfi að keyra tvo kílómetra frá Fljótsdalnum til að komast að bænum þeirra. „Þú myndir ekkert ramba til mín við að vera keyra frá Egilsstöðum,“ segir Agnes sem tekur ennfremur fram að landið sé allt afgirt.

Hún segir jafnframt að það sé nóg um fé á leiðinni til þeirra við veginn og því óhugsandi að einhver hafi komið sérstaklega inn á landið þeirra til þess að gera þetta. Agnes telur þetta þó vera einungis tilviljunarkennt. 

Agnes Klara Ben Jónsdóttir.
Agnes Klara Ben Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Farið inn á persónulega svæðið manns

Aðspurð segir hún ekki telja þetta vera ógnandi hegðun í garð síns eða mannsins síns og að þetta eigi ekkert skylt við níðstöng sem var reist við Skraut­hóla nærri Esjurót­um sem hefur verið greint frá hjá mbl.is.

Spurð um hvernig þeim líði í kjölfar þessa atviks segir Klara þetta fyrst og fremst vera skrítið.

„Þetta var svolítið skrítinn dagur í gær og við reyndum bara að afsanna að þetta væri möguleiki, reyndum að sjá hvort að tófa hafi getað gert þetta en nei þetta er alltof hreinlegt. Manni líður eins og það hafi verið farið inn á persónulega svæðið manns,“ segir Klara í lokin og biðlar til fólks alls staðar um landið að hafa augun opin gagnvart skringilegri hegðun í kringum lömb.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert