Hægt að sjá skurðaðgerð í rauntíma í símanum

Björn segir hraða þróun vera í appinu, það sé uppfært …
Björn segir hraða þróun vera í appinu, það sé uppfært á um tveggja mánaða fresti. Skjáskot/Landspítalinn

Nýtt smáforrit Landspítalans fyrir sjúklinga hefur litið dagsins ljós en það hefur undanfarið verið til prófunar hjá sjúklingum bráðamóttökunnar í Fossvogi. 

Brátt verður það opnað fyrir sjúklinga hjartadeildar og krabbameinslækninga en í haust er stefnt að því að allir sjúklingar spítalans hafi aðgang að smáforritinu.

Þetta segir Björn Jónsson, deildarstjóri heilbrigðis- og upplýsingatækni hjá Landspítala, en smáforritið er liður í nýrri stafrænni vegferð spítalans er snýr að sjúklingum eftir að áherslan síðustu ár hafi verið á innri starfsemi spítalans.

Smáforritið er meðal annars þróað í samvinnu við Advania auk fleiri hugbúnaðarfyrirtækja, en hluti af umræddri stafrænni framþróun er að gefa nýsköpunarfyrirtækjum aukinn kost á samstarfi með Landspítalanum.

Sjúklingar á bráðamótöku í Fossvogi hafa þegar haft aðgang að …
Sjúklingar á bráðamótöku í Fossvogi hafa þegar haft aðgang að appinu. Brátt bætist í þann hóp.

Óskir um mat án milliliðs

Þá eru mikilvæg gögn sem fást í smáforritinu meðal annars yfirsýn yfir hvaða heilbrigðisstarfsfólk er að sinna manni í hvert skipti, tímabókanir, aðgerðir sem og meðferðir, bæði fyrirhugaðar og yfirstaðnar.

Upplýsingaflæði milli sjúklinga og starfsfólks stórbætist einnig með tilkomu smáforritsins, að sögn Björns en með því geta sjúklingar sent skilaboð á starfsfólk spítalans.

„Ef þú situr niðri á bráðamóttöku þá getur þú sent skilaboð á starfsfólkið sem birtist þeim á skjá. Þeir munu geta sent mataróskir og ýmislegt fleira,“ segir Björn og nefnir að það bæti bæði upplifun sjúklinga og spari tíma starfsfólks.

Með tilkomu sjúklingaappsins séu þeir mikið betur undirbúnir og upplýstir áður en þeir koma á spítalann, sem og þegar þeir útskrifast.

„Þeir vita hvaða tímabókanir þeir eru að fara í, hvaða rannsóknir þeir eru að fara í og geta einnig svarað spurningalistum áður en þeir koma á spítalann.“

Dæmi um skjáskot úr Landspítalaappinu.
Dæmi um skjáskot úr Landspítalaappinu. Skjáskot/Landspítalinn

Geta fylgst með skurðaðgerðum í rauntíma

Einnig geta makar sjúklinga sem þurfa að gangast undir skurðaðgerð fylgst með stöðu aðgerðarinnar í rauntíma. Til dæmis hvenær viðkomandi er kominn inn á skurðstofu, hvenær hann er svæfður, hvenær aðgerð er lokið og hvenær vöknun hefst.

„Ég veit að mörgum finnst þetta mikilvægt. Margir vilja geta fylgst með þessum hlutum,“ segir Björn og heldur áfram:

„Við sjáum þetta sem lykiltól í framþróuninni sem mun eiga sér stað hérna hjá okkur hérna á næstu árum sem snýr að sjúklingi.“

Hægt verður að sjá í rauntíma hvenær sjúklingur er svæfður, …
Hægt verður að sjá í rauntíma hvenær sjúklingur er svæfður, hvenær aðgerð er lokið og hvenær vöknun hefst. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

App fyrir starfsfólkið líka

Björn segir að einnig sé í þróun forrit fyrir starfsfólk spítalans sem nýtir sömu tækni og sjúklingaappið. Fyrsta útgáfa þess kemur á næstu dögum.

Fyrst um sinn verður það fyrir fluttningastarfsfólk spítalans en í kjölfar þess bætist klínískt starfsfólk við.

„Það er mikilvægt fyrir starfmennina, klínískt jafnt og annað starfsfólk, að þeir hafi handhægar upplýsingar um öll erindi sem berast þeim, dagatalið þeirra, þeir geti pantað helstu þjónustu, og svo framvegis,“ segir Björn.

Losna við pappírinn

Á svona sjúklingaapp sér einhverja fyrirmynd erlendis?

„Já það eru fyrirmyndir erlendis frá. Við ætlum að nýta okkur það og skoða, hvað hefur virkað vel þar og hvað ekki.“

Björn segir hraða þróun vera í smáforritinu, það sé uppfært á um tveggja mánaða fresti. Meðal atriða sem eru væntanleg í næstu útgáfum eru rannsóknarniðurstöður, tímabókanir, upplýsingar úr sjúkraskrá en sjúkraskrá spítalans samanstendur af yfir 100 tölvukerfum.

Fyrir tíu árum hafi þetta mest verið í pappírsmöppum.
„Og það eru mörg skref sem þurfti að taka til að losna við allan þennan pappír.“

Smáforritið er, sem segir, komið í almenna notkun hjá öllum þeim sem koma á bráðamóttöku eða skurðaðgerð í Fossvogi. Myndskeið sem útskýrir smáforritið nánar má finna hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert