Ráðleggur borgarstjóra höfuðborgar Síerra Leóne

Esther Hallsdóttir er nemandi við Harvard Kennedy og starfar hjá …
Esther Hallsdóttir er nemandi við Harvard Kennedy og starfar hjá borgarstjóra Freetown í Sierra Leon. Hér má sjá Esther fyrir framan skólann. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er hérna í Freetown, höfuðborg Síerra Leóne, að vinna fyrir borgarstjórann sem heitir Yvonne Aki-Sawyerr en hún er fyrsti lýðræðislegi kjörni kvenkyns borgarstjóri Freetown,“ segir Esther Hallsdóttir í samtali við mbl.is en hún mun verja sumrinu í Síerra Leóne og starfa sem ráðgjafi fyrir borgarstjóra Freetown í kynjajafnréttismálum.

Borgin er litrík og full af lífi, það eru alltaf börn úti að leika sér í fótbolta við hliðina á húsinu þar sem hún dvelur og stelpurnar skarta margar fallegum afrískum klæðum. Frá hverju götuhorni heyrist skemmtileg tónlist og um helgar lifnar borgin við þar sem íbúarnir halda uppi fjörugu skemmtanalífi. Það er því mikil gleði í Síerra Leóne, að sögn Estherar.

Borgin er litrík og full af lífi að sögn Esther.
Borgin er litrík og full af lífi að sögn Esther. Ljósmynd/Aðsend

Miklar áskoranir

Síerra Leóne er samt ekki án vandamála en Esther segir borgina glíma við fjölmargar áskoranir daglega.

„Það eru margar áskoranir í borginni. Vatnið er óhreint og í raun hættulegt þar sem það getur valdið bakteríusýkingum og því þarf maður að passa sig á að borða ekki mat sem er þveginn upp úr kranavatninu.

Það er takmarkað rafmagns framboð hérna, en Freetown fær meirihluta rafmagnsins frá einu skipi sem stendur við höfnina sem rekið er af tyrknesku fyrirtæki sem Freetown kaupir rafmagn af,“ segir hún og bætir við að oft sé ekki rafmagn til staðar þar sem hún býr.

Ef það er ekkert rafmagn þá er engin loftræsting en hitinn í Síerra Leóne er mikill. Hins vegar bendir hún á að um þriðjungur íbúa Freetown búi í bárujárnhúsum í óformlegri byggð. Í þeim verður mjög heitt og því telur hún sig búa við mikinn lúxus miðað við aðra í borginni.

Ljósmynd/Aðsend

Vinna að ráðleggingum fyrir borgarstjórann

Esther vinnur fyrir Yvonne Aki-Sawyerr sem er fyrsti lýðræðislegi kjörni kvenkyns borgarstjóri Freetown. Hún var fyrst kjörin fyrir fjórum árum og starfar Esther við að leggja mat á hvernig stefna hennar síðustu fjögur ár hefur haft áhrif á líf kvenna og stúlkna í borginni sem og að setja fram ráðleggingar um hvernig væri hægt að styðja betur við kynjajafnrétti.

Esther Hallsdóttir ásamt vinkonu sinni Stuti Ginodia á fyrsta vinnudeginum …
Esther Hallsdóttir ásamt vinkonu sinni Stuti Ginodia á fyrsta vinnudeginum í Freetown. Þær eru í sama námi við Harvard og vinna verkefnið saman. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem ég er að gera hér ásamt vinkonu minni úr náminu, við erum tveggja manna teymi, er að leggja mat á hvernig stefna hennar síðustu fjögur árin hafa haft áhrif á líf kvenna og stúlkna í borginni og setja fram ráðleggingar um hvernig væri hægt að styðja betur við kynjajafnrétti í borginni og takast á við allskonar áskoranir sem konur í borginni standa frammi fyrir.

Það er til dæmis hár mæðradauði, konur eru sjaldnar læsar heldur en menn, þær hafa færri tækifæri til að mennta sig á hærri stigum, og færri tækifæri til að fá góða atvinnu. Konur vinna mikið úti í mörkuðum og eru mjög berskjaldaðar fyrir nátturuöflunum, mikill hiti og á rigningartímabilinu er flóðhætta,“ segir hún.

Stundar nám við Harvard

Esther stundar mastersnám í opinberri stefnumótun (e. public policy) við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Nemendur sérhæfa sig á mismunandi málefnasviðum en Esther hefur lagt áherslu á kynjajafnrétti og barnavernd og hefur unnið að rannsóknum meðfram námi sínu á kynferðisbrotum í stríði.

Í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu birti Washington Post grein eftir hana þar sem hún varaði við að blikur væru á lofti um útbreiðslu kynferðisofbeldis af hálfu rússneska hersins í stríðinu. Hún segir að erfitt sé að horfa upp á að skrif hennar hafi síðar meir raungerst eftir því sem líður á stríðið. Starf hennar í sumar er nátengt námi hennar og þeim rannsóknum sem hún hefur stundað.

Esther segir strendurnar í Sierra Leone vera fallegar.
Esther segir strendurnar í Sierra Leone vera fallegar. Ljósmynd/Aðsend

Lífið í Síerra Leóne ólíkt Reykjavík

Esther segir lífið í Freetown eins ólíkt Reykjavík og hægt er að komast. „Umferðin hérna er mjög kaótísk og maður heyrir alltaf í fólki, bílum og dýrum. Ég er til dæmis vakin af hana klukkan sex hvern einasta morgun,“ segir hún og hlær.

„Það er alltaf mjög mikið um að vera hérna.“

Síerra Leóne glímir við mikla fátækt en það er sjötta fátækasta land í heiminum. Esther segir hins vegar að þrátt fyrir þá miklu fátækt og allar þær áskoranir sem íbúarnir glími við finni fólk alltaf leið til að gera lífið aðeins skemmtilegra.

Stýra borg við erfiðar aðstæður

Esther kveðst þakklát fyrir alla þá reynslu sem fylgir starfi hennar og þeirri þrautseigju sem hún hefur fengið að upplifa af hálfu starfsfólks borgarstjórans.

„Við erum að vinna hérna á skrifstofu borgarstjóra og okkar verkefni er þvert á alla þætti sem þau eru að vinna að, þau leggja áherslu á ellefu mismunandi geira, þannig að við erum að fá innsýn inn í alla vinnuna sem þau eru að vinna, allt frá því að innheimta skatta, reka grunnskóla, setja upp vatnsstöðvar, vinna að borgarskipulagi og uppbyggingu almenningssamgangna.

Og það er alveg magnað að fylgjast með fólkinu sem vinnur hérna á skrifstofunni sem er að stýra borg við svona erfiðar aðstæður þar sem að vandamálin sem  koma upp á hverjum degi eru svo ótrúlega stór. Það er til dæmis bara mjög erfitt að finna fjármagn til að greiða grunn starfsfólki bæjarins. Þau eru mjög háð utanaðkomandi fjármagni, “ segir hún.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert