Skaut föstum skotum á forsætisráðherra

Þórhildur Sunna.
Þórhildur Sunna. mbl.is/Hákon

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, skaut föstum skotum á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í kvöld.

Hún sagði að ef væntanlegur kjósandi VG hefði ratað í tímavél árið 2017 og skroppið fimm ár fram á við hefði viðkomandi átt erfitt með að trúa eigin augum er hann sæi hverju atkvæði hans hefði skilað.

„Auðvitað er það lyginni líkast að konan sem hélt innblásnar ræður um réttlæti til handa þeim sem minnst eiga og mest þurfa á hjálp að halda, sé nú öflugasti bandamaður þeirra sem mest eiga og heimta samt ennþá meira, hvað sem það kostar,“ sagði Þórhildur.

Fjármagnseigendur aldrei haft það betra

Þórhildur sagði það vera ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að þakka að fjármagnseigendur hefðu aldrei haft það betra. Á sama tíma neitaði rétt um helmingur landsmanna og rúmlega 80% fatlaðs fólks sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, vegna þess að þau hefðu ekki efni á henni.

Þá nefndi hún að stjarnfræðileg hækkun húsnæðisverðs væri hagstjórnarmistökum ríkisstjórnarinnar að þakka, sem hefðu gert það að verkum að sífellt stærri hópur ætti í erfiðleikum með að ná endum saman. Verðbólgan hefði ekki verið hærri síðan 2010 og leiguverð færi sífellt hækkandi.

„Nei, í alvöru talað“

„Nei í alvöru talað, hver hefði trúað þessu fyrir fimm árum síðan?“ spurði Þórhildur og bætti við:

„Hver hefði trúað því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur væri í þessum töluðu orðum að vinna að því að slá Íslandsmet í fjöldabrottvísunum flóttafólks? Að á tímum þegar fjöldi fólks á flótta hefur aldrei verið meiri, vinni hún hörðum höndum að því að koma frumvarpi í gegnum þingið sem er fyrst og fremst gert til að auðvelda stjórnvöldum að vísa flóttafólki á götuna, hvort sem það er í Grikklandi eða hér heima?“

Hún velti einnig fyrir sér hver hefði trúað því að neyðarástand ríkti í heilbrigðiskerfinu og að hjúkrunarfræðingar hættu störfum, hver á fætur öðrum. „Að í valdatíð Katrínar Jakobsdóttur hafi hjúkrunarfræðingar tvívegis verið sendir í gerðardóm með kröfur sínar um sanngjörn laun – og að ljósmæður hafi verið sendar rakleiðis sömu leið?“

Þá spurði hún væntanlegan kjósanda VG árið 2017 hvort hann hefði trúað því að Katrín þyrfti skýrslu frá ríkisendurskoðanda til að geta ákveðið hvort það væri ásættanleg hegðun að Bjarni Benediktsson hefði selt pabba sínum hlut í Íslandsbanka í lokuðu ferli.

Hafi þurft snjallan auglýsingakall til að láta sér detta í hug þetta rugl

„Já, hver hefði trúað því í hópi kjósenda VG árið 2017 – að þetta yrði staðan í dag? Það þarf enda heilan her upplýsingafulltrúa og spunameistara til þess að halda þessu leikriti gangandi. Það hlýtur til dæmis einhver mjög snjall auglýsingakall að hafa látið sér detta þetta innblásna rugl í hug sem finna má í inngangi endurnýjaðs sáttmála flokkanna – en þar stendur með leyfi forseta: „Samstarf þessara þriggja flokka, sem spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapar jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara.““

„Jafnvægi er grundvöllur framfara? Hvað þýðir það? Ekki neitt,“ sagði Þórhildur.

„Þetta er dæmigerður, innantómur froðufrasi úr smiðju stjórnmálafólks í ímyndarkrísu, sem þarf að réttlæta eigin mistök fyrir sjálfu sér,” sagði hún að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert