„Erum að spila upp fyrir okkur og verðum að nota rödd okkar“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, á fundi varnarmálaráðherra Norðurhópsins …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, á fundi varnarmálaráðherra Norðurhópsins í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að afstaða Íslands skipti máli í innrás Rússlands í Úkraínu og að mikilvægt sé að Ísland og Íslendingar nýti rödd sína í baráttu gegn stríðinu.

Tveggja daga fundi varnarmálaráðherra Norðurhópsins lauk formlega í gær. Þar voru ráðherrar og fulltrúar frá ríkjunum tólf sem skipa Norðurhópinn komnir saman til að ræða öryggismál og innrás Rússlands í Úkraínu. Mbl.is ræddi við Þórdísi Kolbrúnu að fundi loknum.

Spurð hvaða hlutverki Ísland þjóni, þegar kemur að öryggismálum og stríðinu í Úkraínu, segir Þórdís Ísland vera í einstakri stöðu sem land með engan her.

„[E]n það breytir ekki því að við tökum hlutverki okkar alvarlega. Við erum stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu og við erum staðsett þannig að það hefur mikla hernaðarlega þýðingu,“ segir Þórdís og bætir við að hlutverk Íslands felist í viðbrögðum okkar við átökum víðs vegar um heiminn.

Þurfum að nota rödd okkar

„Til dæmis höfum við gripið til ýmissa ráðstafana vegna ástandsins í Úkraínu, allt frá mannúðaraðstoð til fordæmingar og atkvæðagreiðslu á alþjóðavettvangi þar sem við höfum sæti við borðið eins og hver önnur þjóð. Við erum þar af leiðandi að spila upp fyrir okkur og verðum því að nota rödd okkar,“ tekur Þórdís fram.

Þá segir Þórdís að henni finnist Íslendingar oft ekki vilja taka afstöðu þegar það er óþægilegt af því að við erum smá þjóð með engan her. Að hennar mati hvílir enn ríkari skylda á Íslendingum tli að taka afstöðu vegna þessa. 

Þá bendir hún á forseta Úkraínu, Volodimír Selenskí, sem dæmi um hvernig orð geta haft áhrif. 

„Við sjáum það á hvernig Selenskí notar orð, hvernig hann hamrar á þeim gildum sem Úkraína stendur fyrir, að orð hafa áhrif og orðræða hefur mikinn kraft.“

Vill taka enn meira þátt

Spurð hvort að búast megi við að hergögnum muni fjölga og viðbúnaður eigi eftir að aukast á Íslandi á næstu árum vegna ástandsins í Úkraínu, segir Þórdís að engin eðlisbreyting muni eiga sér stað varðandi það.

Hún segir þó vissulega meiri umferð hjá hernum á Keflavíkursvæðinu. Nú sé engu að síður sjónum beint að Eystrasaltsríkjunum og Póllandi hvað varðar aukið viðbúnaðarstig og varnarinnviði. 

„Hvað gerist svo í náinni framtíð veit maður ekki. Við tökum okkar hlutverk alvarlega og ég hef sagt áður að ég vil að við séum tilbúin til þess að skoða alla möguleika þar sem við getum stigið frekar inn eins og við gerðum þegar við veittum vina- og bandalagsríkjum stuðning til að flytja vopn í gegnum íslenska landhelgi yfir til Úkraínu,“ segir Þórdís í lokin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert