Kryfur breytingaskeiðið með Norðmönnum

Mæðgurnar Herdís Pálsdóttir og Dóra Þórhallsdóttir reka saman fyrirtækið EQ …
Mæðgurnar Herdís Pálsdóttir og Dóra Þórhallsdóttir reka saman fyrirtækið EQ Institute í Ósló þar sem þær kenna fjölda fólks tilfinningagreind. Dóra leikur hins vegar tveim skjöldum og skemmtir þúsundum Norðmanna með uppistandi á kvöldin. Ljósmynd/Aðsend

„Ég flutti til Noregs þegar ég var tveggja ára, pabbi fór í skóla hér og meiningin var nú alltaf að fara til baka. Svo fékk pabbi vinnu hjá Det Norske Veritas og við erum hér enn. Þannig að ég var alin upp við að vera alltaf að fara heim,“ segir Dóra Þórhallsdóttir í Drammen í Noregi, löngu landsþekktur uppistandari sem auk þess rekur fyrirtækið EQ Institute ásamt Herdísi Pálsdóttur móður sinni.

Dóra er reyndar menntuð kennari, blaðamaður og fjölskylduráðgjafi og starfar við það síðasttalda hjá EQ Institute sem í raun er skóli þar sem 400 nemendur tileinka sér þá list að öðlast næmari skilning á sjálfum sér og þróa með sér tilfinningagreind til bóta samskiptum við sjálfa sig sem aðra.

Auglýsing um uppistand Dóru yfir inngangi Chat Noir, skammt frá …
Auglýsing um uppistand Dóru yfir inngangi Chat Noir, skammt frá Aker-bryggju í Ósló, einum margra staða þar sem Íslendingurinn kennir Norðmönnum allt um breytingaskeiðið í 80 mínútna uppistandi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þrjár konur uppistandandi

„Ég ólst upp í Lommedalen sem enginn veit hvar er,“ heldur Dóra áfram, en dalur þessi er þó í Bærum, nágrannasveitarfélagi Óslóar og komst reyndar nokkuð rækilega á kortið með frægð skákmeistarans Magnusar Carlsens sem þar bjó um árabil. „Ég hélt ég ætlaði að verða kennari og fór í kennaraskóla en þegar ég var búin með það nám fór ég í blaðamennsku og tók meistarapróf í því fagi,“ segir Dóra sem skrifaði eina grein á blaðamennskuferli sínum eftir allt námið.

„Fyrsta greinin sem ég skrifaði fjallaði um hvers vegna svona fáar konur væru í uppistandi í Noregi og þurfti þá að fara að skoða það. Þetta var í október 2000 og ég spurði þá á staðnum sem ég heimsótti hvort ég mætti prófa og var boðið að mæta. Á þessum tíma voru þrjár konur í uppistandi í Noregi og svo þróaðist þetta nú þannig hjá mér að þessi fyrsta grein sem ég skrifaði varð líka sú eina sem ég skrifaði á ferlinum eftir fjögurra ára nám. Þá hafði ég verið átta ár í námi með kennaranáminu og starfaði aldrei sem kennari heldur. Svo þetta var svolítið dýr grein,“ segir Dóra og hlær hrossahlátri.

Rætin á svip þylur Dóra fræði sín yfir áhorfendum. Henni …
Rætin á svip þylur Dóra fræði sín yfir áhorfendum. Henni þótti það skjóta skökku við að starfa við fjölskylduráðgjöf og lenda svo í skilnaði en setningin „þetta átti nú ekki að fara svona“ kveikti einmitt hugmyndina að glænýju uppistandi sem hún flutti rúmlega hundrað sinnum um gervallan Noreg. Ljósmynd/Aðsend

Skildu ekki að uppstand er einræða

Skyldi það hafa verið eins og að drekka vatn að byrja í uppistandi án nokkurrar reynslu af því? „Já, þetta gekk í rauninni bara ótrúlega vel. Ég skrifaði bara um það sem mér datt í hug, til dæmis sjampóauglýsingar, og í fjögur ár var þetta alveg fullt starf hjá mér,“ rifjar Dóra upp. „Uppistandið var svo nýtt í Noregi um aldamótin, fólk vissi ekkert út á hvað þetta gekk,“ heldur hún áfram og rifjar upp broslega sögu frá Norður-Noregi.

Með börnunum Elíasi og Söru á regnvotum degi. Íbúar Norður-Noregs …
Með börnunum Elíasi og Söru á regnvotum degi. Íbúar Norður-Noregs glöggvuðu sig ekki alveg á því um aldamótin hvað uppistand gengur út á og tóku að ræða málin við Dóru. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna norður frá áttuðu áhorfendurnir sig ekkert á því að uppistand er eintal og héldu að um samtal uppistandara og áhorfenda væri að ræða og fóru að taka fram í og ræða málin, ég var að tala um sjónvarpsefni og hvað margt skrýtið væri þar á ferð og þá komu bara svör úr salnum, „já, þetta er alveg rétt hjá þér“, fólk þarna hafði aldrei séð uppistand,“ segir Dóra og hlær.

Þá hafi aðbúnaður á mismunandi stöðum gjarnan reynst erfiður ljár í þúfu, hljóðkerfum og ljósum var oft ábótavant og þá á brattann að sækja. „Ef maður lenti á vondu hljóðkerfi reyndu áhorfendur að hughreysta og sögðu mér að tala bara nógu hátt, þá heyrðu allir í mér og svo stóð maður þarna og öskraði heilt uppistand. Svo var lýsingin stundum svo léleg að ég man eftir fjórum skiptum þar sem ég stóð bak við myndvarpa og notaði ljósið frá honum,“ segir Dóra af eldskírn sinni í uppistandinu sem hún stundar þó enn rúmum 20 árum síðar.

Allir orðnir blindfullir

Fátt hafi verið í föstum skorðum varðandi uppistand í Noregi um aldamótin, mætingartími á staði hafi til dæmis sjaldnast þótt tiltökumál af hálfu verta. „„Ja, komdu svona ellefu-hálftólf,“ var kannski sagt við mann og þá var staðan alltaf orðin þannig að allir voru orðnir blindfullir þegar maður byrjaði og það er mjög erfitt að skemmta of drukknu fólki,“ segir Dóra sem tók sér frí frá skemmtanabransanum árið 2004 og byrjaði með fjölskylduráðgjöf.

Dóra heldur úti hlaðvarpinu Relasjonspodden, eða Tengslavarpinu, með Kjersti Idem …
Dóra heldur úti hlaðvarpinu Relasjonspodden, eða Tengslavarpinu, með Kjersti Idem þar sem þær svara spurningum hlustenda og ræða hvaðeina varðandi samskipti kynjanna eða bara fólks almennt enda ekkert mannlegt óviðkomandi. Skjáskot/Aðsent

Leið svo og beið og Dóra skildi við mann sinn, þá tæplega fertug og komin með tvö börn, Söru og Elías. „Mér fannst það nú bara pínlegt, starfandi fjölskylduráðgjafi og lendi svo í skilnaði. En þá fékk ég hugmyndina að nýju uppistandi sem gekk einmitt út á setninguna „þetta átti nú ekki alveg að fara svona“, sem á svo oft við í lífinu. Maður sér lífið til dæmis í hillingum þegar maður eignast börn og ímyndar sér að maður verði alltaf úti að leika með þeim og eitthvað og svo er maður bara útjaskaður og drulluþreyttur alltaf,“ segir Dóra og skellihlær.

80 mínútur blaðlaust

Þessi lífssýn varð kveikjan að uppistandi sem hún sýndi yfir hundrað sinnum um allt land og naut mikilla vinsælda. Núverandi uppistand Dóru snýst hins vegar um raunveruleika miðaldra fólks, breytingaskeiðið svokallaða, og heitir einfaldlega „Overganger“ á norsku, sýnt 77 sinnum í þessum skrifuðu orðum. Dóra fer yfir alla algengustu fylgikvillana, byrjar uppi í haus og færir sig niður. „Samt vitum við í rauninni svo lítið um þetta – og þið karlmenn vitið ekkert um þetta!“ segir Dóra og hlær einum fjölmargra hlátra þessa viðtals og blaðamaður játar í fullkominni uppgjöf sigraðs manns, örugglega löngu kominn á eigið breytingaskeið. Dóra sýnir tvisvar í viku og segir því ekki um sérstaklega mikið álag að ræða. En gleymir hún aldrei textanum sínum?

Aðalatriðið er auðvitað að kunna textann sinn enda gleymir Dóra …
Aðalatriðið er auðvitað að kunna textann sinn enda gleymir Dóra honum aldrei. Hún kveður mikla gleði fólgna í því að vera ekki að fara með Shakespeare eða Ibsen heldur eigið sköpunarverk. Ljósmynd/Aðsend

„Nei nei, aðalatriðið er auðvitað að kunna hann og í þessu uppistandi þarf ég að kunna klukkutíma og 20 mínútur af texta, ég æfi mig náttúrulega bara og þyl textann endalaust. En þetta er líka svo skemmtilegt af því að þetta er mitt, ég er ekki að fara með Shakespeare eða Ibsen heldur er þetta minn eigin texti og það er voðalega gaman,“ segir uppistandarinn.

Blaðamaður getur ekki á sér setið að nefna við Dóru hve stórskemmtileg hún er til viðræðu og ekki stendur á svarinu: „Já, ég fæ nú samt yfirleitt borgað fyrir það en þú getur fengið það frítt í þetta sinn!“ og uppistandarinn í Drammen hlær sínum smitandi hlátri sem aldrei fyrr við lok vægast sagt hressandi samtals. Og því lýkur hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert