Ekkert í skýrslunni kemur á óvart

Svört skýrsla Byggðastofnunar kemur Trausta ekkert á óvart. Myndin sýnir …
Svört skýrsla Byggðastofnunar kemur Trausta ekkert á óvart. Myndin sýnir fjárrekstur við bæinn Holt undir Eyjafjöllum. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekkert í skýrslu Byggðastofnunar um erfiða stöðu í sauðfjárbúskap kemur Trausta Hjálmarssyni, formanni Landssamtaka sauðfjárbænda, á óvart. Í skýrslunni segir að for­send­ur sauðfjár­bú­skap­ar að óbreytt­um afurðatekj­um og op­in­ber­um greiðslum séu brostn­ar.

„Við erum búin að tala um þetta í fjölda ára, að staðan sé grafalvarleg. Það hefur ekki gengið sem skyldi að ná upp afurðaverðinu,“ segir hann en það hrundi niður árið 2017. 

Hvert er stærsta vandamálið að þínu mati?

„Við þurfum að fá hærra verð greitt fyrir kíló af lambakjöti til þess að þetta gangi upp.“

Trausti Hjálmarsson, formaður Landssamtaka sauðjárbænda.
Trausti Hjálmarsson, formaður Landssamtaka sauðjárbænda. Ljósmynd/Aðsend

Enginn vilji hafa heimilið í taprekstri

Ríf­lega þriðjung­ur sauðfjár­bænda með 300 fjár eða meira er kom­inn yfir sex­tugt og er talið að stór hluti þeirra sé lík­leg­ur til að bregða búi á næstu árum. Spurður segir Trausti það vera mikið áhyggjuefni.

„Ef það er ekki afkoma í atvinnugrein þá vil enginn fara í það. Og það er ekki við miklu að taka í sveitum landsins að fara í sauðfjárbúskap til þess að vera með allt heimilið í taprekstri. Það þarf að leiðrétta kjörin. Þá verður eðlileg nýliðun í greininni, annars ekki,“ segir hann. 

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra er nýtekinn við málefnum sauðfjárbænda en áður voru þau á höndum Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Spurður hvort fyrri ráðherrar málaflokksins hafa vanrækt þessa hluti segist Trausti ekki vilja taka afstöðu til þess.

Skautað framhjá því að takast á við vandann 

„Við erum búin að benda á þetta í langan tíma. Það hefur einhverra hluta vegna verið skautað framhjá því að takast á við raunverulegan vanda greinarinnar. Við höfum fengið viðbótarframlög frá ríkinu inn á milli sem hefur dugað til skemmri tíma,“ segir hann en það dugi ekki til lengri tíma litið. Ríkið þurfi að koma inn í greinina af krafti með stétt sauðfjárbænda.

Að mati Byggðastofnunar stefnir í að rekstrarniðurstaða meðalsauðfjárbúsins, sem hlutfall af tekjum, verði neikvæð um allt að 50% og að rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnstekjur og afskriftir verði neikvæð um 25%. Miðað við stöðu mála væri því líklegt að einhverjir sauðfjárbændur hætti búskap haustið 2022.

„Ég hef miklar væntingar til þess að horft verði til hennar við lausnir á stöðunni. Það verður ekki lengur haldið áfram svona, það er útilokað,“ segir Trausti í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert