Hindra ekki sjúklinga í að leita réttar síns

Anna Sigrún Baldursdóttir framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landspítala.
Anna Sigrún Baldursdóttir framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landspítala. Ljósmynd/Landspítalinn

Áður en sjúklingar gangast undir aðgerð á Landspítala, skrifa þeir undir yfirlýsingu til staðfestingar á því að þeir hafi veitt upplýst samþykki fyrir aðgerðinni, er þetta almennt gert nema í bráðaaðgerðum þar sem því verður ekki við komið.

Þar eru tilgreindir mögulegir fylgikvillar og áhættur sem fylgja aðgerðinni, en neðst kemur fram að þrátt fyrir undirskrift, falli réttur viðkomandi til að leita réttar síns ekki niður, verði mistök eða annars konar frávik. 

„Við höfum engar heimildir til þess að takmarka rétt fólks í þeim efnum, með okkar eigin hugmyndum um réttarstöðu sjúklinga,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landspítala.

Óvænt útbreiddur misskilningur

Það vakti athygli þegar kona greindi frá því, á facebook síðu sinni, í vikunni að henni hafi verið gert að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að hún myndi ekki lögsækja spítalann ef mistök yrðu gerð í aðgerð sem hún gekkst undir til að láta fjarlægja krabbameinsæxli úr nýra. 

Hún kvaðst ekki hafa þorað annað en að skrifa undir, þó það væri henni þvert um geð, enda veik og ekki í stöðu til að gera annað. 

Í athugasemdum við færslu konunnar bar á því að fleiri töldu sig hafa gengist við sambærilegri yfirlýsingu á lífsleiðinni. 

Anna Sigrún segir að um misskilning sé að ræða. „Manni bregður því þetta er alveg skýrt í textanum.“ Hún kvað stjórnendur spítalans ekki hafa orðið þess varir áður, að þetta væri viðtekinn misskilningur. 

Í athugasemdum við færslu konunnar bar á því að fleiri …
Í athugasemdum við færslu konunnar bar á því að fleiri töldu sig hafa gengist við sambærilegri yfirlýsingu á lífsleiðinni. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Sjálfsagt gæðaeftirlit

„Ef fólk er að misskilja leiðbeiningarnar er það sjálfsagt að gæðaeftirlit endurskoði það hvernig við kynnum þetta.“

Yfirleitt eru það skurðlæknar, svæfingalæknar eða hjúkrunarfræðingar sem hitta sjúklinginn fyrir aðgerðina og útskýra hana fyrir viðkomandi, að sögn Önnu Sigrúnar.

Hér má sjá afrit af yfirlýsingu sem sjúklingar skrifa undir …
Hér má sjá afrit af yfirlýsingu sem sjúklingar skrifa undir áður en þeir gangast undir aðgerð. Ljósmynd/ Landspítali
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert