Óvissustigi vegna jarðskjálftahrinu aflétt

Atburðurinn í maí er áframhald af óróa á Reykjanesskaga sem …
Atburðurinn í maí er áframhald af óróa á Reykjanesskaga sem hófst í lok árs 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum aflýsir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Landris mældist vestan við Þorbjörn á tímabilinu 28. apríl – 28. maí og var mesta hækkun um 5,5 sm. Samhliða því var aukin skjálftavirkni og mældust um 800 skjálftar á sólahring þegar mesta var. Ástæða landrissins er talin vera myndun innskots á svipuðum slóðum og innskotin þrjú sem urðu til 2020. 

Atburðurinn í maí er áframhald af óróa á Reykjanesskaga sem hófst í lok árs 2019. Mikil skjálftavirkni hefur verið síðan, nokkur innskot hafa myndast og eldgos varð í Geldingadölum 2021.

Þessi atburðarrás og saga eldvirkni á Reykjanesskaga renna stoðum undir að nýtt eldgosatímabil kunni að vera að hefjast á Reykjanesskaga.  Síðasta tímabil stóð yfir á árunum 800-1240 og urðu 18 gos á 440 árum.  Á þessum tíma runnu hraun frá eldstöðvakerfunum Reykjanesi, Svartsengi, Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum,“ segir í tilkynningu.

Almannavarnir, ríki, sveitarfélög og fyrirtæki á svæðinu munu halda áfram vinnu við áhættumat, mótvægisaðgerðir og viðbragðsáætlanagerðir til þess að vera undirbúin löngu tímabili óróa á Reykjanesskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert