„Töluvert magn af óuppfylltum loforðum“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, vonar innilega að það náist að …
Drífa Snædal, forseti ASÍ, vonar innilega að það náist að klára lífeyrisfrumvarpið og frumvarp um ný húsaleigulög áður en Alþingi fer í sumarfrí. Samsett mynd

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) segir ljóst að ganga verði enn of aftur til kjarasamninga með töluvert magn af óuppfylltum loforðum. Nefnir hún í því samhengi hin ýmsu frumvörp sem hafa ekki verið afgreidd og verða það kannski ekki fyrir sumarfrí. Þetta kemur fram í nýjum pistli Drífu sem birtist á vef ASÍ.

„Nú er lokaspretturinn á Alþingi fyrir sumarfrí og þrefað og samið um hvaða mál ná framgangi og hver ekki. Það er áhugavert að fylgjast með því, þar sem þetta eru síðustu þinglok á þessu kjarasamningstímabili og því síðustu forvöð að gera þær lagabreytingar sem lýst var yfir að ætti að gera í tengslum við kjarasamningana 2019,“ skrifar Drífa.

Frumvörp sem ekki hafa verið afgreidd

Hún nefnir að frumvarp sem kemur í veg fyrir kennitöluflakk hafi ekki enn fengist samþykkt og það sé ekki einu sinni til umræðu. Þá var frumvarp um ný starfskjaralög lagt fram en ekki verið afgreitt, ASÍ hafi ekki þrýst á að frumvarpið nái fram að ganga því það taki ekki á launþjófnaði eins og lofað var.

„Frumvarp um lífeyrismál sem lofað hefur verið síðan 2016 er loksins komið á lokametrana eftir miklar umræður en þar eru loksins lögfest 15,5% iðgjöld í lífeyrissjóði á almenna markaðnum eins og á hinum opinbera. Það er ekkert launungarmál að það hafa verið töluverð átök um frumvarpið innan verkalýðshreyfingarinnar,“ segir Drífa og bætir við að búið sé að finna málamiðlun og nauðsynlegt sé að klára málið.

Þá nefnir Drífa að frumvarp um húsaleigulög gangi alltof skammt en þó sé afar mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga enda liður í þeirri vegferð að koma böndum á leigumarkaðinn. Þá sé búið að lofa enn frekari lagabótum í haust.

Hún bætir einnig við að frumvarp um vexti og verðtryggingu hafa dagað uppi í þinginu og þótti mörgum það ekki ganga nógu langt í þá átt að afnema svokölluð 40 ára lán.

Ýmislegt hafi þó áunnist

Að lokum bendir Drífa þó á að ýmislegt hafi áunnist á tímabilinu eftir síðustu kjarasamninga: Breytingar á skattkerfinu, fæðingarorlof, bætt í tilfærslukerfin eins og barnabætur og fleira.

„Það er hins vegar ljóst að gengið verður til kjarasamninga með töluvert magn af óuppfylltum loforðum enn og aftur. Vonandi verður sá listi styttri en stefnir í núna og vona ég innilega að það náist að klára lífeyrisfrumvarpið og frumvarp um ný húsaleigulög.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert