Fá nú að selja bjór, gin og landa

Helgi Sigurðsson er eigandi KHB brugghúss á Borgarfirði eystra.
Helgi Sigurðsson er eigandi KHB brugghúss á Borgarfirði eystra. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Helgi Sigurðsson, eigandi KHB brugghúss á Borgarfirði eystra, segist fagna því að frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um breytingu á áfengislögum hafi verið samþykkt á Alþingi í vikunni. Með nýjum lögum verður smærri áfengisframleiðendum gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað sínum.

Að sögn Helga kom það á óvart að útvíkkun á leyfinu, til þeirra sem brugga sterkara áfengi en öl, hafi komist í gegn. „Ég átti alls ekki von á því að sterka kæmi þarna inn, en því var laumað inn á síðustu metrunum,“ segir hann, en KHB framleiðir ásamt bjór einnig gin og landa, en KHB brugghúss var fyrst allra brugghúsa á landinu til að framleiða landa.

Langt í næstu vínbúð ÁTVR

Aðspurður segir hann að breytingarnar geri KHB brugghúsi kleift að selja beint til ferðamanna, en brugghúsið er í talsverðri fjarlægð frá næstu vínbúð ÁTVR, þar sem ekkert útibú er að finna í byggðarlaginu. „Þeir sem eru að framleiða undir 100 þúsund lítrum af sterku mega selja sterkt. Fyrir okkur þýðir það að það verður einfaldara fyrir fólk að nálgast þetta, sérstaklega þar sem við erum staðsett á ferðamannasvæði sem er fjarri vínbúðunum. Þannig að það verður auðveldara fyrir ferðamenn að kaupa af okkur,“ segir hann og bætir við að ferðamenn sem hafa gert sér ferð að brugghúsinu hafi oft og tíðum viljað kaupa beint á framleiðslustað brugghússins.

„Salan þannig séð eykst eitthvað aðeins. Ég á ekki von á því að þetta breyti áfengismarkaðnum að miklu leyti, en þetta auðveldar aðgengi að vörum okkar og þá sérstaklega fyrir ferðamenn.“

Nánar er rætt við Helga í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert