Stefna á að sigla með farþegana aftur í land

Ferjan Baldur er skammt fyrir utan Stykkishólm.
Ferjan Baldur er skammt fyrir utan Stykkishólm. mbl.is/Einar Falur

Verið er að koma farþegum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs aftur í land í Stykkishólmi með farþegaskipinu Særúnu að sögn Gunnlaugs Grettissonar, framkvæmdastjóra Sæferða. 102 eru um borð í ferjunni.

Uppfært 10:56:

Að sögn Gunnlaugar hefur verið hætt við að ferja farþegana yfir í Særúnu. Í staðinn er verið að losa akkeri Baldurs og stefnt er að því að sigla frá fyrir eigin vélarafli aðeins utar. „Það virðist allt virka eins og það á að gera en þeir ætla að fara á betri stað til að gera smá prufu,“ segir Gunnlaugur í samtali við mbl.is og bætir við að báturinn Björg sé að koma frá Ólafsvík til að koma til móts við Baldur. Ef allt gengur eftir munu Björg og Baldur sigla saman inn til hafnar í Stykkishólmi.

Sigldi einungis í sex til sjö mínútur

Gunnlaugur segir að ferjan hafi verið nýfarin frá Stykkishólmi er bilun kom upp í gír.

„Hún fór rétt um klukkan níu og ætli þetta gerist ekki um sex eða sjö mínútum seinna, þá kemur þessi bilun,“ segir hann og bætir við að ferjan hafi verið stöðvuð og kastað út akkeri. 

Kallað var á Landhelgisgæsluna en líkt og áður sagði er skipið Særún nú að ferja farþega í land.

„Það er talið að þetta sé bilun í gír en hann virkar samt. Við viljum ekki hreyfa fyrr en við erum búin að koma farþegunum í land eða frá borði,“ segir Gunnlaugur og bætir við að ef hægt sé að tryggja öryggi verði Baldri siglt aftur fyrir eigin vélarafli að höfn í Stykkishólmi. 

Þar verður ástand ferjunnar betur skoðað áður en haldið verður lengra.

Hann segir alveg ljóst að röskun verði á ferðum Baldurs í dag, „en vonandi, þegar það kemst að bryggju og menn finna hvað hefur gerst þarna, getur ferjan siglt af fullu öryggi. Við viljum auðvitað aldrei gefa afslátt af örygginu, það er það sem skiptir mestu máli að öryggi sé aldrei ógnað.“ 

„Gríðarleg vonbrigði“

Gunnlaugur nefnir að miklar aðgerðir hafi verið um borð eftir ítrekaðar bilanir ferjunnar á síðasta ári.

„Það er búið að gera mikið og taka skipið vel út en það eru auðvitað gríðarleg vonbrigði að fá þessa bilun upp núna. Ég hef sagt það áður að það getur því miður allt bilað og við erum svo sannarlega í þeim stormi þessa stundina.“

Ferjan Baldur fyrir utan bryggjuna í Stykkishólmi. Þyrla Landhelgisgæslunnar er …
Ferjan Baldur fyrir utan bryggjuna í Stykkishólmi. Þyrla Landhelgisgæslunnar er vinstra megin við ferjuna. mbl.is/Gunnlaugur Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert