„Eins og við séum öll tilbúin í fjörið aftur“

Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.
Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík. mbl.is/Hákon

Lokadagur Listahátíðar í Reykjavík var í dag, 19. júní. Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, segir hana hafa gengið vonum framar og að viðburðir hafi verið mjög vel sóttir.

„Veðrið er búið að leika við okkur megnið af hátíðinni sem skiptir náttúrulega máli. Við vorum með stóran viðburð sem heitir Undraskógurinn í Elliðaárdalnum í dag og jafnvel þótt það sé rigning er þetta búið að vera algjört ævintýri. Fólk lætur ekkert á sig fá,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.

„Það sem við erum þakklátust fyrir á þessum tímapunkti er hversu vel Reykvíkingar og bara fólk á Íslandi hefur tekið hátíðinni í ár, það er eins og við séum öll tilbúin í fjörið aftur.“

Hátíðin er kannski líka sérstaklega vegleg núna vegna þess að við áttum inni erlenda viðburði frá því árið 2020.“

Eins og að gera upp á milli barnanna sinna

Spurð hvort einhver viðburður hafi verið í sérstöku uppáhaldi segir Vigdís það vera eins og að gera upp á milli barnanna sinna.

„Það eru mikilvægir viðburðir eins og til dæmis Klúbbar Listahátíðar, það eru ótrúlega margir mikilvægir viðburðir búnir að vera þar sem eru svona innlegg í samtal um listir og menningu í víðara samhengi.

Við erum bæði búin að eiga mikilvægt og djúpt samtal um stöðu jaðarsettra hópa í íslensku listalífi og um list á stríðstímum. Það hefur gengið alveg ótrúlega vel, dag eftir dag hefur verið öflug dagskrá, alltaf ókeypis og öll velkomin,“ segir Vigdís.

Vigdís segir að verkið Sun & Sea, sem sýnt var í Hafnarhúsinu 4. og 5. Júní, hafi slegið í gegn. „Þetta var bara algjör bomba og mikilvægt að geta boðið upp á svoleiðis viðburði ókeypis,“ segir hún og bætir við að margir viðburðir hafi verið ókeypis í ár.

Kynna nýtt listafólk

Vigdís segir að ýmislegt nýtt og óhefðbundið hafi verið á dagskránni í ár.

„Við erum að kynna nýtt erlent listafólk fyrir Íslendingum og kannski svolítið nýja hugsun í sumum verkefnum. Mér finnst það hafa verið eitthvað sem fólk hefur svona kveikt á.

Eins og Taylor Mac sem kom í upphafi hátíðarinnar á stóra svið Þjóðleikhússins með hljómsveit og opnaði augu mjög margra fyrir því hvernig við höfum verið að segja söguna í gegnum tíðina. Sama með Barböru Hannigan sem hefur aldrei komið til Íslands áður og var með Sinfó, líka nýtt nafn og hún sló algjörlega í gegn.“

Vigdís segir að eitt af hlutverkum listahátíðar sé að kynna almenningi fyrir því ferskasta á erlendum vettvangi og blanda því saman við það sem er að gerast á innlendum vettvangi. „Ég held að það hafi tekist vel í ár.“

„Algjör bomba í lokin“

Dansverkið Every Body Electric var sýnt í Hörpu á síðasta degi hátíðarinnar. Verkið er eftir hina austurrísku Doris Uhlich og eru allir dansararnir með líkamlega fötlun. „Þetta er alveg mögnuð sýning og bara með því stórkostlegasta sem ég hef séð.“

Emilíana Torrini steig á svið í Eldborg í kvöld og í stjörnuveri Perlunnar fór fram flutningur strengjakvartettsins Spektral á verkinu Enigma eftir tónskáldið Önnu Þorvaldsdóttur.

„Þannig að það er algjör bomba núna í lokin. Teymið er orðið pínu þreytt en við erum öll í stuði og rosalega glöð með þetta,“ segir Vigdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert