Vinna að friðlýsingu Fjaðrárgljúfurs

Eins og má sjá er Fjaðrárgljúfur mikil náttúruperla.
Eins og má sjá er Fjaðrárgljúfur mikil náttúruperla. Ljósmynd/Arnar Freyr Tómasson

Kaupandi jarðarinnar Heiði í Skaftárhreppi þar sem má finna hluta Fjaðrárgljúfurs og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, hafa undirritað samkomulag um að vinna að friðlýsingu svæðisins. 

Samkomulagið kveður á um að ráðuneytið falli frá forkaupsrétti jarðarinnar en eigandinn lýsti sig samþykkan því að vinna að friðlýsingu. 

Talsverð verndarþörf

Í apríl barst ráðuneytinu erindi þar sem óskað var afstöðu ríkissjóðs til nýtingar forkaupsréttar vegna sölu Heiðar en Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá og samkvæmt lögum um náttúruvernd hefur ríkissjóður forkaupsrétt að jörðum sem eru að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá. Eins og fyrr hefur verið greint frá ákvað ríkissjóður ekki að nýta sér þennan forkaupsrétt.

Lítur ráðuneytið svo á að hægt sé að tryggja vernd svæðisins án þess að þurfa að ganga inn í kaupin. Kemur fram á vef Stjórnarráðsins að verndarþörf á svæðinu sé talsverð vegna mikils ágangs ferðamanna. 

Eigendur annarra jarða sem Fjaðrárgljúfur er hluti af hafa einnig lýst sig viljuga til að vinna að friðlýsingu gljúfursins. 

Samkvæmt fyrrgreindum lögum hvílir forkaupsréttur ríkisins áfram á jörðinni komi hún aftur til eigendaskipta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert