Ekki sjálfgefið að flytja í 9 ár til Strassborgar

Gunnar Þór Pétursson.
Gunnar Þór Pétursson. Ljósmynd/ HR

Hæfnikröfur fyrir embætti dómara við Mannréttindadómstól Evrópu eru stífar og embættistíð er níu ár, hvorki meira né minna. Þessi atriði hafa áhrif á fjölda þeirra sem sækjast eftir embættinu, en Ísland þarf að tilnefna þrjá umsækjendur og einungis þrír sóttu um, bæði í ár og árið 2013. 

Þetta segir Gunnar Þór Pétursson, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. „Þú þarft að uppfylla sömu hæfnikröfur og gerðar eru til dómara við Hæstarétt hér heima, svo þarftu að hafa góða þekkingu á alþjóðalögum, sérstaklega Mannréttindasáttmála Evrópu. Loks þarftu að hafa fullkomið vald á annaðhvort ensku eða frönsku, auk þess að hafa vinnuhæfni í því tungumáli sem þú ert síðri í.“

Langur tími fyrir tímabundið starf

Þegar þessar kröfur hafa verið settar fram, er ljóst að hópurinn sem uppfyllir þær allar er takmarkaður. Þá er ekki sjálfgefið, þó einstaklingur uppfylli ofangreindar kröfur, að hann hafi áhuga, eða sé í aðstöðu til, að flytja til Strassborgar í níu ár, enda er það langur tími fyrir tímabundið starf. 

„Þegar þetta er upp talið, þá er í sjálfu sér ekki óeðlilegt þó það sé ekki risastór hópur sem sækir um. Sömu kröfur eru gerðar til allra aðildarríkjanna, en við erum ekki nema 380 þúsund.“

Gunnar telur þó ekki til of mikil ætlast af Íslandi að geta tilnefnt þrjá hæfa umsækjendur í embættið. Það hafi komið honum á óvart að umsækjendur væru ekki nema þrír, síðustu tvö skipti.

Hann tekur að vissu leyti undir orð Davíðs Þórs Björgvinssonar, fyrrverandi dómara Íslands við MDE, um að það kunni að hafa áhrif þegar það spyrst út að öflugur umsækjandi, á borð við Oddnýju Mjöll Arnardóttur, sækist eftir embættinu. 

Áskorun að fylla listann

Oddný, Jónas Þór Guðmundsson og Stefán Geir Þórisson, voru þeir umsækjendur sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra tilnefndi. Að loknum viðtölum í Strassborg drógu þeir Jónas Þór og Stefán Geir umsóknir sínar til baka. 

Katrín hefur lýst þvi yfir að næstu skref verði að auglýsa stöðu tveggja umsækjenda, enda hefur Oddný Mjöll ekki dregið sína umsókn til baka og verður hún því áfram meðal umsækjenda. 

Gunnar segir þetta óvanalega stöðu og grunar að það gæti orðið áskorun fyrir forsætisráðuneytið að fá umsækjendur, þegar fyrir liggur að Oddný Mjöll sé tilnefnd í embættið. Hann kveðst þó ekki vita hvað gerist, ef það berast engar umsóknir. 

Ekki endanlegt mat hér heima

Hæfnisnefnd, skipuð af forsætisráðherra, metur hvort umsækjendur séu formlega hæfir, þá einkum til að gegna stöðu dómara við Hæstarétt, en í viðtalinu í Strassborg reynir, meðal annars, meira á þekkingarþáttinn, að sögn Gunnars. Þá annarsvegar þekkingu á sáttmálanum og hinsvegar tungumálaþekkingu. 

„Nefndin hér heima er ekki lokaúrskurðaraðili, heldur gengur þetta út á að senda út þrjá hæfa sem eru svo metnir endanlega í Strassborg.“

Í skýrslu á vefsvæði MDE kemur fram að nefnd um kosningu dómara við dómstólinn, sem tók viðtölin við umsækjendur, hafi frestað því að skila niðurstöðum um íslensku umsækjendurna, að loknum viðtölum. 

Í kjölfarið drógu þeir Jónas Þór og Stefán Geir, umsóknir sínar til baka, en Davíð Þór sagði, í viðtali við mbl.is að sér þætti líklegt að viðraðar hafi verið efasemdir um styrkleika þeirra eftir viðtalið. Þá lýsti hann því að viðtöl sem þessi séu á borð við þriðju gráðu yfirheyrslu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert