Ekki til skoðunar að auka gæslu á Kíkí queer bar

Tvöföld gæsla er á skemmtistaðnum Kíkí queer bar.
Tvöföld gæsla er á skemmtistaðnum Kíkí queer bar. mbl.is/Styrmir Kári

Árni Grétar Jóhannsson, eigandi Kíkí queer bar, sem er vinsæll skemmtistaður meðal hinsegin fólks í miðbæ Reykjavíkur, segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé til skoðunar að bæta við gæslu á staðnum en að skotárásin í Ósló veki upp mikinn óhug innan hinsegin samfélagsins.

Um klukkan 01:15 aðfaranótt laugardags, 23:15 að íslenskum tíma, dró karlmaður upp skammbyssu við skemmtistaðinn London Pub, sem hinsegin fólk sækir mjög, og hóf skothríð.

Árni Grétar bendir á að á Kíkí hafi alltaf verið mikil öryggisgæsla. Tvöföld gæsla er á staðnum miðað við það sem skemmtanaleyfi þeirra segir til um. Segir hann það vera stefnu skemmtistaðarins að fólki líði mjög öruggu, hvort sem gestir eru hinsegin eða ekki. „Það er mikilvægt að fólk geti auðveldlega fundið dyravörð og að það sé einhver að fylgjast með því að það sé ekki verið að byrla fólki ólyfjan og fleira.“

Ekki jafn mikil paradís og margir halda

Segir Árni að þetta veki upp mikinn óhug. Upp hafi komið atvik á staðnum sem beri vott um fordóma í garð hinsegin fólks. Segir hann atvikin þó ekki hafa verið tengd líkamlegu ofbeldi, heldur eru dæmi um að blöðungum hafi verið dreift með trúarlegum skilaboðum, sem setji út á kynhneigðir hinsegin fólks og annars konar áreiti.

Spurður hvort skotárásin sé merki þess að Norðurlönd séu ekki alveg jafn mikil jafnréttisparadís og margir lifi í trú um, svarar Árni því játandi. „Það er alveg langt því frá og því miður eru til veikar sálir alls staðar. Við getum heldur ekki gleymt áhrifum stjórnmálamanna og annarra sem stíga fram um allan heim og búa til svona „við og þau“ viðhorf og þessa aðgreiningu á milli mismunandi hópa,“ segir Árni og bætir við að besta leiðin til að koma í veg fyrir svona ofbeldisfullar atlögur sé að stöðva þá afmennskun, sem eigi sér stað gagnvart ýmsum hópum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert