Loka fyrir rafmagn hjá fólki í vikunni

Lokað verður fyrir raforku hjá ákveðnum hópi fólks í þessari …
Lokað verður fyrir raforku hjá ákveðnum hópi fólks í þessari viku. mbl.is/RAX

Í þessari viku verður byrjað að loka fyrir rafmagn hjá þeim sem ekki hafa valið sér nýjan raforkusala. Hópurinn telur tæplega 700 manns víðs vegar af landinu.

Að sögn Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku, gerist það ekki lengur sjálfkrafa að fólk fái raforkusala við íbúðakaup heldur þarf það að velja sér fyrirtæki. Þeir sem eru að koma nýir inn á íbúðamarkaðinn eða hafa tekið sér 90 daga hlé frá honum hafa núna 30 daga til að velja sér raforkusala.

Eiga engra kosta völ

Lovísa segir marga ekki vita af þessu fyrirkomulagi. Áður fyrr sá kerfi sem kallaðist „söluaðili til þrautarvara“ til þess að fólk fékk raforkusala sjálfkrafa ef það valdi sér hann ekki en kerfið var dæmt ólögmætt af úrskurðarnefnd raforkumála. Núna starfar Orkustofnun eftir nýrri reglugerð sem gefur fólki 30 daga frá notendaskiptum á raforkumæli.

Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.
Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku.

„Það er mikilvægt að það komi fram að ástæðan fyrir því að það er verið að loka hjá fólki er sú að dreifiveitum er óheimilt samkvæmt lögum að afhenda raforkuna ef þessi samningur er ekki til staðar. Þær eiga engra kosta völ. Það vill enginn þurfa að loka en því miður þá eru þeim þessar skorður settar,“ greinir Lovísa frá.

Tekur örfáar mínútur

Aðspurð býst hún við því að veiturnar fái mestu viðbrögðin frá fólki þar sem lokað verður fyrir rafmagnið, enda er kostnaðarsamt að opna það aftur. Hún segir aðeins taka örfáar mínútur að velja sér raforkusala og hvetur fólk til að gera það sem fyrst. Hægt er að sjá frekari upplýsingar bæði á samorka.is og orkustofnun.is, eða hjá raforkufyrirtækjunum. Hægt er að vera í viðskiptum hjá átta fyrirtækjum, óháð því hvar á landinu fólk er búsett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert