Veggjalýs og aukinn rottugangur með fjölgun ferðamanna

Veggjalýs og rottur herja nú á Reykvíkinga.
Veggjalýs og rottur herja nú á Reykvíkinga. Samsett mynd

Mikil fjölgun hefur orðið á í útköllum hjá meindýraeyðum vegna veggjalúsa, sem á ensku kallast bed bugs, á höfuðborgarsvæðinu undanfarið. 

„Já það er búið að vera fjölgun á veggjalúsum undanfarnar vikur og undanfarna tvo mánuði hefur verið alveg stígandi,“ segir Steinar Smári Guðbergsson, meindýraeyðir á höfuðborgarsvæðinu. 

Hann segir að veggjalús sé að finna á hótelum, í sumarbústöðum og á heimilum fólks. Alla jafna sé ekki mikil veggjalús á Íslandi en aukningin haldist í hendur við aukinn ferðamannastraum hingað til lands sem og fleiri ferðalög Íslendinga erlendis. 

Þarft ekki að fara út fyrir landsteinana

„Þetta kemur með okkur heim frá útlöndum en líka að finna í sumarbústöðum. Þú þarft ekki endilega að ferðast til útlanda til að fá þetta,“ segir Steinar Smári. 

Steinar Smári segir að útköllum hafi einnig fjölgað vegna rotta. „Eins og með ferðamenn hefur rottunni fjölgað,“ segir hann og telur sig getað útskýrt fjölgunina.  „Ég hef þá tilgátu að þegar Covid-19 kom hingað þá hafi útköllum vegna rottna snarfækkað, vegna þess að það þurfti að loka svo mörgum veitingastöðum og það var talsvert minna af æti fyrir rottuna,“ segir hann.

„En núna er henni farið að fjölga og fólk er farið að verða vart við rottur víða í bænum, eitthvað í Kópavogi, eitthvað í Hafnarfirði en meira í Reykjavík,“ bætir hann við. Auk þess segir Steinar Smári að hann sé farinn að sjá ummerki eftir rottur austan við Elliðaárnar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert