Auglýsa eftir rekstraraðila nýrrar heilsugæslu

Áætlað er að nýja heilsugæslan geti þjónað allt að 11.000.
Áætlað er að nýja heilsugæslan geti þjónað allt að 11.000. mbl.is/​Hari

Sjúkratryggingar Íslands, fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins, hafa auglýst eftir rekstraraðila til að reka nýja heilsugæslustöð í Reykjanesbæ.

Um er að ræða heilsugæslustöð í 1.050 m2 húsnæði að Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands. Áætlað er að hin nýja heilsugæslustöð geti þjónað allt að 11.000 íbúum svæðisins. 

Íbúum fjölgað hratt undanfarið

„Íbúum Suðurnesja hefur fjölgað hratt undanfarin ár og er fjölgunin langt umfram spár. Það er því mikil þörf á aukinni heilsugæsluþjónustu á svæðinu.“

„Ríkið leggur til húsnæði undir starfsemina sem verður innréttað í samráði við verksala, en miðað er við að verksali leggi til húsbúnað og lækningatæki. Gengið er út frá samningi til fimm ára.“

Kemur fram að um sé að ræða fyrstu sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðina utan höfuðborgarsvæðisins og er fjármögnun samkvæmt fjármögnunarlíkani fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni.

Þá er stefnt að áframhaldandi uppbyggingu heilsugæsluþjónustu á svæðinu og er vinna við undirbúning á byggingu nýrrar 1.350 fermetra heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík í fullum gangi, að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert