Tveggja metra skaflar við Öskju

Tveggja metra skaflar mynduðust á Öskjuvegi í gær. Sigurður Erlingsson, landvörður við Öskju, segir það ekki gerast oft en að allt geti þó gerst á hálendinu.

„Það er alltaf spurning hvað sé vanalegt á hálendinu en það getur allt gerst. Það er kannski óvenjulegt að það nái að setja alveg tveggja metra skafla. Það gerist ekki oft,“ segir Sigurður sem hefur verið Landvörður við Öskju síðan árið 2014.

Hann bætir þó við að ástæðan fyrir því að svo háir skaflar hafi myndast sé að rutt hafi verið upp eftir og snjórinn sé að fylla í snjógöng.

Gönguleiðin tvöfaldast

Þá segir hann að um ákveðna upplifun sé að ræða. Snjórinn geri það að verkum að í staðinn fyrir að gangan inn að Víti sé 2,5 kílómetrar sé hún 4,5 kílómetra enda er færð að bílaplaninu við Öskju erfið.

„Það eru þá 9 kílómetrar í snjó fram og til baka. Það eru ekki allir tilbúnir í það en fólki finnst heilmikil upplifun að einmitt koma hingað,“ segir hann og bætir við:

„Þótt að það komist ekki endilega að Víti að þá er það samt upplifun.“

Gestir eru þó hvattir til að kynna sér færð og veður vel áður en lagt er af stað á hálendið.

20 gráður í fyrra

Hvernig er upplifunin að fá vetur um sumar?

„Mér er svona farið að finnast eins og ég væri alveg til í að fara á sólarströnd,“ segir Sigurður en bætir þó við að þetta jafnist út. Í fyrra hafi til að mynda flesta daga verið yfir 20 gráður.

„Við trúum því að þetta hafi verið stuttur vetur og sumarið komi aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert