Ský af brennisteinsvetni svífur yfir Reykjavík

Toppurinn sem sást á mælingum í morgun kemur væntanlega frá …
Toppurinn sem sást á mælingum í morgun kemur væntanlega frá jarðhitavirkjununum, annars vegar Hellisheiðarvirkjun og hins vegar Nesjavallavirkjun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brennisteinsvetni jókst skyndilega í andrúmsloftinu við Grensásveg klukkan tíu í morgun og færðist hún svo yfir Lambhaga í Úlfarsárdal um hádegisbil.

Lítið er vitað um heilsufarsleg áhrif brennisteinsvetnis, en Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengunarmálum hjá Umhverfisstofnun, segir að einstaklingar sem séu viðkvæmir fyrir vegna lungnasjúkdóma, kunni að finna fyrir meiri sjúkdómseinkennum við slíkar aðstæður.

Þá fylgi brennisteinsvetni líka sérkennileg lykt sem sumir séu viðkvæmir fyrir. 

„Í mjög miklu magni getur þetta auðvitað verið lífshættulegt, en það var einmitt banaslys í Hellisheiðarvirkjun fyrir einhverjum árum þar sem menn fóru inn í rör sem leiddi brennisteinsvetni. Þetta í dag er samt ekkert til að hafa áhyggjur af.“

Kemur frá jarðhitavirkjunum

Toppurinn sem sást á mælingum í morgun kemur væntanlega frá jarðhitavirkjununum, annars vegar Hellisheiðarvirkjun og hins vegar Nesjavallavirkjun, að sögn Þorsteins.

„Þetta er greinilega ekki mjög breið mengun heldur nokkurra kílómetra breiður mengunargeiri sem berst þangað með vindáttinni. Þegar vindurinn stendur beint upp á höfuðborgarsvæðið þá eiga til að mælast svona toppar.“

Stefna á að dæla niður 95 prósent

Þorsteinn bendir á að Hellisheiðavirkjun sé í dag að dæla meirihlutanum af brennisteinsvetninu sem af gengur, niður í tveggja kílómetra djúpar borholur, og leitast þannig við að lágmarka mengun. Stefnt er að því að ná hlutfallinu upp í 95 prósent fyrir árslok 2025. 

Sömu áform eru uppi hjá Nesjavallavirkjun, fyrir árið 2030, en Þorsteinn segir að þar sé ekki um neina niðurdælingu að ræða og því verulegar úrbætur á stuttum tíma. 

„Ég er ekki viss um að það sé tæknilega mögulegt að dæla niður 100 prósent.“

Styttir endingartíma raftækja

Þó lítið sé vitað um hin heilsufarslegu áhrif, segir Þorsteinn að brennisteinsvetni sé þekkt fyrir að hafa talsverð áhrif á endingartíma raftækja.

„Þetta er hvarfgjörn loftegund sem hvarfast við málma eins og kopar og silfur, sem eru gjarnan í raftækjum. Þegar þessi efni hvarfast saman myndast koparsúlfíð eða silfursúlfíð, sem leiða rafmagn ekki vel. Með árunum myndast svo súlfíðshúð sem getur valdið truflun á leiðni svo rafmagnið safnast upp og slær út á endanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert