Starfsmaður stal 1,7 milljónum frá Bónus

Konan misnotaði aðstöðu sína sem starfsmaður Bónus.
Konan misnotaði aðstöðu sína sem starfsmaður Bónus. mbl.is/Þór

Kona sem starfaði hjá Bónus í Holtagörðum hefur verið dæmd af Héraðsdómi Reykjavíkur í 60 daga fangelsi fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína sem starfsmaður og dregið sér fjármuni frá Bónus, alls 1,7 milljónir króna.

Fullnustu refsingarinnar er hins vegar frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi hún skilorði.

Segir í dómnum að konan hafi, á tímabilinu 1. febrúar 2015 til 7. nóvember 2018, framkvæmt tilhæfulausar mínusfærslur í kassakerfi verslunarinnar og í kjölfarið tekið samsvarandi fjárhæð úr peningaskáp verslunarinnar og nýtt í eigin þágu.

Konan mun einnig hafa sett 20.000 kr. inn á fyrirframgreitt Bónuskort sem hún greiddi ekki fyrir og nýtti það í eigin þágu. Þá tók hún einnig 22.000 kr. úr peningaskáp verslunarinnar og nýtti í eigin þágu.

Bótakrafan féll niður

Hagar hf. höfðu krafist skaðabóta að fjárhæð 1.589.979 kr. auk vaxta og dráttarvaxta. Segir hins vegar í dómnum að þar sem að bótakrefjandi sótti ekki þing við fyrirtöku málsins, né boðaði lögmæt forföll eða ákæruvaldið tekið að sér að mæta fyrir hönd þess er krafan niður fallin.

Konan játaði skýlaust brot sín og hefur ekki áður sætt refsingu sem var metið henni til refsimildunar. Henni var gert að greiða málsvarnarþóknun til skipaðs verjanda, 167.400 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert