SÍ endurgreiða ferðakostnað í auknum mæli

Margir þurfa að ferðast langar vegalengdir til þess að komast …
Margir þurfa að ferðast langar vegalengdir til þess að komast í blóðskilun. Nú endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 95% af kostnaðinum.

Sjúkratryggingar Íslands hafa nú ákveðið endurgreiða 95% af ferðakostnaði fyrir þá sem þurfa að fara í lengri ferðir vegna blóðskilunarmeðferðar.

Nýrnafélag Íslands greinir frá þessu í tilkynningu og fagnar breytingunum. Í fjölda ára hafa þeir nýrnasjúklingar sem þurfa að komast í blóðskilun aðeins fengið 75% af ferðakostnaði endurgreiddan en blóðskilun er skilgreind sem lífsbjargandi meðferð.

Geta ekki keyrt eftir blóðskilun 

„Blóðskilun er lífsbjargandi meðferð og gilda reglurnar því um hana. Þetta munar miklu fyrir fólk, enda getur ekki fólk farið strax að keyra eftir slíka meðferð,“ segir Guðrún Barbara Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Nýrnafélagsins. Ferðakostnaður geti þá orðið ansi hár fyrir fólk sem fer í blóðskilun.

Lengri ferðir eru ferðir út fyrir sveitarfélag þess er þiggur meðferðina í yfir 20 kílómetra fjarlægð frá heimkynnum viðkomandi en auk þess er skilyrði að viðkomandi þjónusta sé ekki í boði þar.

Vilja akstursþjónustu á milli sveitarfélaga fyrir fatlað fólk 

„Það er Nýrnafélaginu mikið ánægjuefni að þessi breyting hafi orðið, enda mjög mikilvægt skref fyrir félagsmenn,“ segir þar. Ef sjúklingur í lífsbjargandi meðferð getur ekki keyrt sjálfur og þarf að nýta sér akstursþjónustu á viðkomandi einnig rétt á 95% endurgreiðslu þess kostnaðar.

Þá skorar félagið á Samband íslenskra sveitarfélaga að hafa forgöngu um að sveitarfélögin komi sér saman um akstursþjónustu milli sveitarfélaga fyrir fatlað fólk og langveikra, sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert