Gagnrýni á Klapp sé gamall orðrómur

Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó.
Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó. mbl.is

Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó, segir gagnrýni á Klapp-smáforritið vera gamlan orðróm og hefur notkun appsins gengið vel eftir að birgja tókst að laga hugbúnaðarvillu í skönnunum sem eru í strætisvögnunum. Klapp er ætlað að leysa gamla Strætó smáforritið af hólmi til þess að greiða fargjöld í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu.

„Það var hugbúnaðarvilla í skönnunum sem þeir voru lengi að finna. Reyndar datt þetta út hjá þeim í gær þegar þeir voru að uppfæra kerfið hjá sér. Það eina sem fólk kvartar yfir núna er tíminn sem það tekur að skanna QR kóða. Það getur tekið einhverjar sekúndur,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

„Við erum að uppfæra þetta í nútíma kerfi en gamla kerfið átti aldrei að verða endanlegt greiðslukerfi. Þetta eru ákveðin hænuskref sem við erum að stíga núna.“

Til stendur að uppfæra Klapp, greiðlsuforrit Strætó, í litlum skrefum.
Til stendur að uppfæra Klapp, greiðlsuforrit Strætó, í litlum skrefum. mbl.is/Hari

Borga það sama og í London

„Við byrjum fyrst á þessum einföldu möguleikum eftir núverandi gjaldskrá. Við erum núna að vinna að greiðsluþaki eins og þekkist erlendis. Við verðum með dags greiðsluþak eða viku greiðsluþak til að byrja með,“ segir Jóhannes.

Í haust verður farið í það að taka upp kerfi eins og er í London og víðar þar sem hægt er að borga snertilaust með greiðslukorti eða síma. Hann segir ekki vera hægt að taka slíkt kerfi upp án þess að vinna grunnvinnuna fyrst.

„Við erum alveg að reyna að vinna að því að koma þessu inn í nútímann hérna á Íslandi en það tekur allt tíma. Við erum náttúrulega lítil en borgum yfirleitt það sama fyrir grunnhugmyndina á kerfum eins og í London, þetta er bara spurning hvað við þurfum að kaupa marga skanna, það er oft munurinn,“ segir Jóhannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert