Megi ekki útiloka konur frá sérsveitinni

Engin kona hefur náð að uppfylla lágmarksskilyrði til að komast á nýliðanámskeið fyrir sérsveit ríkislögreglustjóra. Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í greiningardeild, segir að þau líkamlegu viðmið sem notast er við í dag séu ekki endilega einu marktæku viðmiðin.

Hann segir núverandi viðmið, bæði líkamleg og andleg, vera mjög ströng. 

Spurður hvort að það hafi reynst mjög mikilvægt að geta tekið miklar þyngdir í bekkpressu segir Runólfur að það sé aðeins einn mælikvarði líkamslegs styrks.

Bekkpressa ekki besti mælikvarðinn

„Þetta er til skoðunar, hvernig þessi inntökuskilyrði eru til að komast á nýliðanámskeið. Það eru margar leiðir til að mæla líkamlegan styrk og bekkpressa er ekkert endilega besti mælikvarðinn á það,“ segir Runólfur. 

Run­ólf­ur er gest­ur Karítas­ar Rík­h­arðsdótt­ur í Dag­mál­um þar sem auk­inn vopna­b­urður á Íslandi er rædd­ur, vopna­b­urður lög­reglu, skipu­lag og viðbragð sér­sveit­ar­inn­ar og margt fleira. 

Runólfur segir vert að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á inntökuskilyrðin, ekki síst í ljósi þess að engin kona hefur getað uppfyllt þau.  

„Ég held að það sé mikilvægt að á sama tíma og við gerum miklar líkamlegar kröfur, að þær séu ekki á þann veg að þær útiloki kvenkynið að komast þarna inn.“

Horfðu á viðtalið við Runólf í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert