Fá aukna aðstoð frá keppinautum

Leigubílaskorturinn byrjaði af alvöru 2018, að sögn Guðmundar Barkar.
Leigubílaskorturinn byrjaði af alvöru 2018, að sögn Guðmundar Barkar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færst hefur í aukana að leigubifreiðastöðin BSR þurfi að fá aðstoð frá keppinautunum í Hreyfli við að koma viðskiptavinum sínum á áfangastað.

Að sögn Guðmundar Barkar Thorarensen, framkvæmdastjóra BSR, nemur aðstoðin þessa dagana um þremur- til fimm prósentum af ferðunum sem eru pantaðar hjá fyrirtækinu. Stundum gerist það einnig að BSR nær ekki sambandi við Hreyfil vegna þess fjölda sem bíður á línunni og getur því ekki útvegað fólki leigubíla.

Hann segir að vonum mikla óánægju vera hjá viðskiptavinum um stöðu mála þegar kemur að leigubílaskorti.

Hreyfill þarf sjaldnar aðstoð

Guðmundur Börkur rifjar upp að leigubílaskortur á höfuðborgarsvæðinu hafi byrjað af alvöru árið 2018. Hélst hann í hendur við aukinn fjölda erlendra ferðamanna til landsins.

„Við höfum alltaf hringt í hvor annan þegar það hafa komið upp svona mál en þar á undan gerðist það örsjaldan,“ segir Guðmundur Börkur, spurður um ástæðuna fyrir þessu samstarfi. „Þeir [Hreyfill] hringja líka stundum í okkur en mun sjaldnar enda eru þeir með fleiri bíla.“

Hann segir Hreyfilsmenn vera alla af vilja gerðir til að aðstoða, þrátt fyrir að vera keppinautur á leigubílamarkaði. „Það er þannig með leigubíla eins og í ferðaþjónustunni með rútur og fjallajeppa. Það eru allir að vinna saman á álagstímum til þess að reyna að halda uppi þjónustu.“

Stjórnvöld sofið á verðinum

Mikil umræða hefur verið um skort á leigubílum og til að mynda hefur næturstrætó verið kynntur til sögunnar til að brúa bilið. 

Guðmundur Börkur bendir á að í langan tíma hafi leyfi vantað frá hinu opinbera fyrir leigubílstjóra í samræmi við eftirspurnina, eins og komið hefur fram í fréttum. Þarna hafi stjórnvöld sofið á verðinum, sérstaklega í ljósi ferðamannastraumsins undanfarið. Að hans mati þarf að halda fleiri námskeið fyrir þá sem vilja starfa við akstur leigubíla, enda biðlistinn fyrir þau orðinn langur.

Umræðan um farveituna Uber og þóknunina sem hún tekur vegna aksturs, hafi einnig orðið til þess að dregið hafi úr áhuga á leigubílaakstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert