Byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum

Á tímabilinu þarf að lágmarki að byggja 4.000 íbúðir á …
Á tímabilinu þarf að lágmarki að byggja 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin og 3.500 íbúðir á ári síðari fimm árin. mbl.is/Arnþór

Byggja þarf 35 þúsund nýjar íbúðir á Íslandi á árunum 2023 til 2032 til þess að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf. Rammasamningur var í dag undirritaður um aðgerðir til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf ólíkra hópa, þar á meðal fólk með lægri tekjur og minni eignir.

„Eitt stærsta áherslumálið í sáttmála ríkisstjórnarinnar er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær miklu sveiflur sem hafa einkennt hann síðustu ár. Afleiðingar þessara sveiflna eru meðal annars þær að kynslóðir fyrstu kaupenda eiga erfitt með að komast inn á húsnæðismarkað.“

Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra er hann kynnti markmið um aukið framboð af húsnæði á næstu árum.

Samningurinn sá fyrsti sinnar tegundar

Sigurður Ingi skrifaði undir samninginn ásamt Aldísi Hafsteinsdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Hermanni Jónassyni, forstjóra Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Í fyrsta sinn hafa ríki og sveitarfélög gert með sér samkomulag um sameiginlega sýn á aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði til tíu ára og er samningurinn sá fyrsti sinnar tegundar.

Af heildaruppbyggingunni verða 30% hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og 5% félagsleg húsnæðisúrræði til að bæta stöðu viðkvæmra hópa á húsnæðismarkaði. Þá verður ráðist í sérstakt átak til að eyða biðlistum eftir sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk.

Á tímabilinu þarf að lágmarki að byggja 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin og 3.500 íbúðir á ári síðari fimm árin, að því er segir í samningnum.

Stefnt að því að útrýma óviðunandi húsnæði

Ein grundvallarforsenda samningsins er að sveitarfélög taki þátt og hlutist til um að útvega byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir og að ríkið leggi til fjármuni í húsnæðisstuðning.

Settar eru fram 24 aðgerðir í aðgerðaáætlun með samningnum. Meðal annars verður lagt fram frumvarp um breytingar á skipulagslögum á haustþingi til að lögfesta heimild sveitarfélaga til að skilyrða notkun lands til uppbyggingar hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði óháð eignarhaldi lóðar.

Þá verður stefnt að því að útrýma óviðunandi húsnæði, meðal annars á atvinnusvæðum og íbúðarhúsnæði þar sem kröfur um öryggi eru ekki uppfylltar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert