Draumur varð fljótt að martröð

Hótel Jazz í Reykjanesbæ.
Hótel Jazz í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var draumur sem breyttist fljótt í martröð,“ segir erlendi starfsmaðurinn, sem vann mánaðarlanga vinnu fyrir Hótel Jazz í Reykjanesbæ án þess að fá greidd nein laun, í samtali við Morgunblaðið. Hann segist hafa unnið myrkranna á milli og í kjölfarið verið kastað út á götuna.

Maðurinn hefur sterkan grun um að fleiri starfsmenn hjá hótelinu séu í svipaðri ef ekki verri stöðu en hann og bætir við að hann hafi orðið var við fólk á hótelinu sem hann grunar að fái ekki greidd laun. Starfsmaðurinn er breskur karlmaður á miðjum aldri. Hann er fyrrverandi atvinnumaður í golfi og var áður trúlofaður íslenskri konu. Hann sagði sögu sína í samtali við Morgunblaðið, en vildi að svo stöddu ekki koma fram undir nafni.

Svik eftir 20 ára vináttu

Maðurinn segist vera í algjöru áfalli eftir liðna atburði. Hann hafi aldrei búist við því að dvöl sín á Íslandi myndi enda svona.

Breski maðurinn og rekstraraðili Hótel Jazz voru ágætir vinir áður og kynntust í Danmörku fyrir 20 árum. Hafði breski maðurinn beðið eftir að geta komið til Íslands til þess að vinna og hefja nýtt líf. Segist hann hafa haft samband við rekstraraðila hótelsins sem bauðst til að borga flug fyrir hann til Íslands. Þegar hann var kominn til Íslands krafðist hann þess að fá samning til að skrifa undir en rekstraraðilinn hunsaði fyrirspurnir hans ítrekað.

Upphaflega átti breski maðurinn að vinna sem rekstrarstjóri veitingastaðarins á Hótel Kirkjufelli, sem hét áður Hótel Framnes í Grundarfirði, en var tilkynnt með stuttum fyrirvara að það væri búið að færa hann í almenn störf á Hótel Jazz. Hótel Framnes komst í fréttir árið 2016 fyrir sambærilegt mál.

Að sögn mannsins vann hann stanslaust á Hótel Jazz. „Ég vann frá átta um morguninn langt fram á kvöld og vann alla daga mánaðarins fyrir utan einn dag. Ég tók á móti gestum, sá um morgunmatinn, þreif herbergi og fleira.“

Hann segir að ef miðað sé við lágmarkskjör skuldi hótelið honum minnst 830 þúsund krónur fyrir vinnu sína en hann hafi ekki séð einn eyri.

Rekstraraðili hótelsins útbjó aldrei samning, tilkynnti honum ekki hversu mikið hann myndi fá greitt og kom sér undan öllum spurningum, skilaboðum og símtölum breska mannsins varðandi kjaramál.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert