Blöskraði aðkoman eftir óboðna ferðamenn

Ferðamennirnir áttu dásamlega stund, að eigin sögn.
Ferðamennirnir áttu dásamlega stund, að eigin sögn. Ljósmynd/Atli Páls

Atla Pálssyni, eiganda eyðibýlis undir Eyjafjöllum, brá í brún þegar hann sá notaðan klósettpappír svífandi fyrir utan býlið sem hann gerir nú upp ásamt fjölskyldu sinni.

Ekki batnaði ásýndin þegar Atli fór á bak við býlið þar sem enn logaði í timbri, sem sótt hafði verið úr skemmu við býlið í leyfisleysi.

„Þetta var dásamleg nótt á heillandi stað,“ stóð á miða sem skilinn var eftir á svæðinu, undirritaður af „ferðalöngunum“ eða „the travelgroup“. Ferðamennirnir höfðu gengið örna sinna inni í skemmunni og skilið eftir dömubindi og klósettpappír á víð og dreif um svæðið.

Mikið fjölmenni á bænum

„Ég var staddur á Hvolsvelli og hitti þar nágranna minn sem segir kumpánlega: „Það var bara mikið fjölmenni hjá þér!“

Og þá sagði ég: „Nei, það held ég ekki... er það?“

Þá svaraði hann: „Jú jú, þarna voru þrír hvítir bílar, Dacia Duster, og að minnsta kosti tvö dökkgræn tjöld.““

Þá leist Atla ekki á blikuna og ákvað því að keyra á staðinn.

Kærir atvikið til lögreglu

„Þá sá ég að greinilega hafði fólk verið þarna, því það fyrsta sem ég sá var fjúkandi skítugur klósettpappír, eins huggulegt og það er. Síðan fór ég á bak við hús og þá kom ég að brennandi eldi, við hliðina á gröfunni sem við erum að nota, til þess að laga svæðið þarna,“ segir Atli. 

„Ég er feginn að hafa farið, þar sem eldurinn logaði við hliðina á vélinni. Hún hefði líklega brunnið, hefði ég ekki slökkt í þessu.“

Atli hefur ekki náð í ferðamennina sem þarna voru að verki en hann hefur kært athæfið til lögreglu. Honum þykir það grátbroslegt og vonast til þess að ferðamennirnir sjái að sér og átti sig á því að þessi hegðun er ekki til eftirbreytni.

„Minjar úr eyðibýlum eru náttúrulega ekki eitthvað sem fólk á að taka og brenna.“

Ferðamennirnir lýstu því á miða sem þeir skildu eftir, að þeir hefðu verið í göngu yfir daginn þegar tók að kólna og því hefðu þeir sótt viðinn og kveikt eld. 

„Afsakið þetta!“ segir á miðanum en að því sögðu stendur í lokin: „Við áttum dásamlega stund.“

Miðinn sem ferðamennirnir skildu eftir. „Við fengum að nota timbur …
Miðinn sem ferðamennirnir skildu eftir. „Við fengum að nota timbur sem við fundum í húsinu í gær. Við gengum í allan dag og það var dálítið kalt. Afsakið þetta! Þetta var dásamlegt kvöld á heillandi stað.“ Ljósmynd/Atli Páls
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert