Fjögurra ára sálfræðimeðferð

Heimir Bjarnason leikstjóri ásamt tíkinni Ripley sem fylgir húsbónda sínum …
Heimir Bjarnason leikstjóri ásamt tíkinni Ripley sem fylgir húsbónda sínum hvert fótmál. mbl.is/Árni Sæberg

„Handritsskrif Þrots var ekki bara vinna fyrir mér heldur sálfræðimeðferð sem tók mig fjögur ár að klára. Ég spegla mig mikið í aðalpersónunum þremur enda hafa þær alla eiginleika sem ég ber sjálfur og með því að kryfja þær náði ég skýrari mynd af sjálfum mér. Samhliða því að klára handritið áttaði ég mig betur á sjálfum mér. Ég lagði ekki upp með að gera þetta svona, það læddist eiginlega bara aftan að mér. Það er því taugatrekkjandi að afhjúpa myndina því þótt hún sé bara enn eitt sakamáladramað á yfirborðinu þá er hún líka innsýn í sjálfan mig.“

Þetta segir Heimir Bjarnason en fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd, Þrot, verður frumsýnd á miðvikudaginn. 

Fyrsta handritsútgáfan af Þrot varð til árið 2014. Þau eru allmörg síðan. „Ég hef skrifað rosalega margar útgáfur og sagan tekið miklum breytingum – úr miklum hasar yfir í meiri karakterstúdíu. Nafnið lifði þó alltaf enda var ég búinn að lofa sjálfum mér að klára þessa mynd,“ segir Heimir og dregur peysuna upp og sýnir mér húðfúr undir hægri handarkrika: Þrot. „Ég ætla ekki að þekja líkama minn með tattúum en pælingin er að vera með IMDB-lista á síðunni.“

Fyrir þá sem ekki þekkja er IMDB kvikmyndavefur með öllum helstu upplýsingum um allar mögulegar og ómögulegar kvikmyndir gegnum söguna.

Bára Lind Þórarinsdóttir og Guðrún S. Gísladóttir í hlutverkum sínum …
Bára Lind Þórarinsdóttir og Guðrún S. Gísladóttir í hlutverkum sínum í Þroti.


Á sér ekki stað í lífinu

Sjálfur á Heimir margt sameiginlegt með aðalpersónunni, Rögnu. „Hún á sér ekki stað í lífinu og festir sig fyrir vikið við bróður sinn sem verður henni fyrirmynd. Þetta systkinasamband vildi ég skoða. Þótt ég byggi Rögnu mikið á eigin reynslu þá er umhverfið og sagan allt önnur. Ég flýtti mér til dæmis að segja við mömmu eftir að hún sá myndina að mamma Rögnu væri ekki byggð á henni.“

Hann hlær.

Hin aðalkvenpersónan, Arna, er meiri uppreisnarseggur og anarkisti. „Ég dett oft í þann gír sjálfur. Verð stundum þreyttur á reglunum og íhaldinu,“ segir Heimir hlæjandi.

Þriðja persónan, Júlíus, glímir svo við fordóma. „Það er eitthvað sem við öll þurfum að horfast í augu við.“

Þó eftir hann liggi einhverjar tíu stuttmyndir þá er ferlið mun lengra og strengra við gerð bíómyndar í fullri lengd. Heimir kveðst hafa notið sín fram í fingurgóma á tökustað. „Mér finnst ég vera 100% ég á setti. Þar er ég í elementinu mínu, veit nákvæmlega hvað ég vil og get svarað öllum spurningum sem fyrir mig eru lagðar. En þetta var samt alveg erfitt, ég missti átta kíló á einum mánuði.“

Snemma beygðist krókurinn. Heimir ungur að árum með eigin teikningu …
Snemma beygðist krókurinn. Heimir ungur að árum með eigin teikningu af kvikmyndahetjunni Shrek.


Heimir ákvað strax fimm ára gamall að hann ætlaði að verða kvikmyndagerðarmaður. „Það var þegar ég sá fyrstu Indiana Jones-myndina. Hún er allt í lagi fyrir fimm ára börn sem mynd númer tvö er ekki,“ segir hann hlæjandi. „Kvikmyndir hafa alla tíð mótað mig og opnað heiminn fyrir mér.“

Hann féll illa að hópum sem barn og unglingur og varð fyrir einelti. Hefði hann ekki haft bíómyndirnar þá hefði Heimir, að eigin sögn, ábyggilega orðið mjög seinþroska. „Ég kynntist lífinu út frá þeim og þær hafa alltaf verið mitt bakland. Ég kynntist dauðanum þegar ég sá My Girl, ástinni í You’ve Got Mail og, alls ekki síst, risaeðlunum í Jurassic Park.“

Trúður og „crazy“-gaur

Heimir ólst að hluta til upp í Sviss en gekk síðar í Versló. Sá tími var blendinn. Hann lærði margt og eignaðist góða vini en óöryggið var samt sem áður leiðarstef gegnum mestalla skólagönguna. „Í efri bekkjum grunnskóla reyndi ég að vera trúðurinn til að uppskera hláturinn en í Versló tók við of mikið djamm og drykkja. Ég gekkst upp í því að vera „crazy“-gaurinn til að fá athygli. Það getur aldrei endað vel. Ég var dálítil þversögn á þessum tíma, hafði komplexa út af því að ég hélt alltaf að ég þyrfti að vera einhver ákveðin týpa.“

Heimir fer yfir málin með Silju Rós Ragnarsdóttur og Báru …
Heimir fer yfir málin með Silju Rós Ragnarsdóttur og Báru Lind Þórarinsdóttur við tökur á Þroti.


Með tímanum náði Heimir betri tökum á lífi sínu og það að var stór varða á vegferð hans þegar hann kom út úr skápnum 15 ára gamall. Það var að sjálfsögðu eftir að hafa horft á bíómynd, Óróa eftir Baldvin Z. „Það var algjör hugljómun og ég hugsaði með mér: Svona er ég! Það er dásamlegt að til sé íslensk kvikmynd sem talar svona sterkt til manns. Til að byrja með kom ég að vísu bara út fyrir systur minni. Það liðu tvö ár þangað til ég kom út gagnvart öllum öðrum.“

– Hvernig stóð á því?

„Það var eitthvað óöryggi; ég var bara ekki 100% viss. Um tíma var ég eins og milli svefns og vöku. Ég var alls ekki týpan sem var líkleg til að koma út úr skápnum; var þekktur sem hálfgerður „hustler“, sem eftir á að hyggja var bara óöryggi, og það voru bara strákar í vinahópnum.“

– Kom þetta fólki þá á óvart?

„Já, mjög svo. Ég sagði einum vini mínum frá þessu á Stjörnutorgi [í Kringlunni] og hann hélt að það væri falin myndavél.“

Hann hlær.

„Annars sló ég bara 1.400 flugur í einu höggi og skrifaði grein í Verslóblaðið. Mér hefur alltaf þótt þægilegast að skrifa – er góður með pennann.“

Hann segir foreldra sína og aðra nánustu aðstandendur hafa tekið fréttunum vel. „Ég hef að vísu aldrei spurt hvaða samtöl fóru fram bak við tjöldin,“ segir hann glottandi. „Nei, nei, mér hefur bara verið vel tekið af fjölskyldu og vinum. Fólk tekur mér eins og ég er.“

Ítarlega er rætt við Heimi Bjarnason í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert