Höfuðstöðvar Skattsins „þjóta“ upp

Góður gangur hefur verið á framkvæmdum við nýtt stórhýsi í …
Góður gangur hefur verið á framkvæmdum við nýtt stórhýsi í Katrínartúni 6. mbl.is/sisi

Góður gangur hefur verið á framkvæmdum við nýtt stórhýsi í Katrínartúni 6. Þangað mun Skatturinn m.a. flytja starfsemi sína. Ekki verður langt að fara því höfuðstöðvar Skattsins eru núna að Laugavegi 166. Á umræddri lóð stóð áður hús sem hýsti höfuðstöðvar WOW-flugfélagsins og málað var í litum félagsins.

Um er að ræða níu hæða skrifstofu-, verslunar- og þjónustubyggingu við Katrínartún 6, auk bílakjallara. Eykt gerði samning við Höfðatorg ehf. um að reisa bygginguna og í því felst jarðvinna, uppsteypa og fullnaðarfrágangur að innan sem utan, að því er fram kemur á heimasíðu Eyktar. Áætluð verklok eru í öðrum ársfjórðungi 2023.

Samningur um nýtt skrifstofuhúsnæði fyrir Skattinn og Fjársýslu ríkisins í Katrínartúni 6 var undirritaður í júní 2021. Hann var til 30 ára með framlengingarákvæði.

„Leiga á nýju húsnæði fyrir Skattinn og Fjársýslu ríkisins hefur í för með sér aukið hagræði og minni áhættu fyrir ríkissjóð. Með flutningunum verður unnt að reka starfsemina í um þriðjungi minna húsnæði en nú er, og tækifæri skapast til að selja óhagkvæmt húsnæði á dýru markaðssvæði,“ sagði m.a. á heimasíðu fjármalaráðuneytisins.

Samningurinn sé í samræmi við það fyrirkomulag sem fylgt hefur verið um árabil að leigja á almennum markaði skrifstofuhúsnæði fyrir starfsemi ríkisstofnana fremur en að ríkissjóður fjármagni sjálfur byggingu eða kaup á slíku húsnæði með tilheyrandi áhættu og fjárbindingu.

Mikil hagðræðing næst fram

Með þessum breytingum mun Skatturinn fara úr samtals 15.000 fermetrum á þremur stöðum niður í 9.700 fermetra húsrými. Þá mun Fjársýslan fara úr 2.900 fermetrum niður í 2.000 fermetra.

„Ljóst er að hér er verið að ná fram mikilli hagræðingu í húsnæðismálum þessara stofnana með því að færa þær í nútímalegt og sveigjanlegt vinnuumhverfi. Þannig nemur húsrýmissparnaðurinn rúmlega þriðjungi af núverandi húsrými eða um 6.200 m²,“ segir ráðuneytið.

Undanfarin fimm ár hefur ríkið tekið á leigu rúma 22 þúsund fermetra á höfuðborgarsvæðinu.

Starfsmenn Skattsins eru u.þ.b. 480 á 16 starfsstöðvum víðs vegar um landið, langflestir í Reykjavík. Starsmenn Fjársýslu ríkisins eru tæplega 90 talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert