Ritstuldur „kallar á fréttaskrif ekki þöggun“

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins. Ljósmynd/Aðsend

Það kallar á fréttaskrif, ekki þöggun,“ segir í pistli Sigmundar Ernis Rúnarssonar, ritstjóra Fréttablaðsins frá því í janúar um meintan ritstuld Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Ásgeir var sakaður um ritstuld fyrir skrif sín þegar hann starfaði í 53 manna teymi við rannsóknarskýrslu Alþingis í kjölfar hrunsins árið 2008.

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að grein Sigmundur í Helgarblaði DV frá árinu 1983 um Kristján Jónsson fjallaskáld er að stórum hluta til orðrétt eftir grein Tómasar Guðmundssonar borgarskálds um sama mann en grein Tómasar er frá 1968.

Þetta komst upp þegar að grein Sigmundar var endurbirt í 2. tölublaði Heima er bezt í ár. Hvorki í Heima er bezt né í Helgarblaði DV er vísað til Tómasar eða getið heimilda.

Barnabarn og nafni Tómasar Guðmundssonar sem á höfundarréttinn að verkum Tómasar telur það ólíklegt að Sigmundur hafi fengið leyfi frá Tómasi fyrir skrifunum en Tómas lést nokkrum mánuðum eftir að grein Sigmundar birtist.

Ef Sigmundur fékk ekki leyfi frá Tómasi er líklegast um ritstuld að ræða af hendi Sigmundar en ef greinarnar tvær eru bornar saman sést að sláandi líkindi eru með þeim.

Fjalla um störf seðlabankastjóra með gagnrýnum hætti

Ásgeir sagði fréttaflutning Fréttablaðsins á sínum tíma vera óvandaðan og óboðlegan í færslu á Facebook-síðu sinni eftir að hann var sakaður um meintan ritstuld á handriti Árna H. Kristjánssonar sagnfræðings sem Ásgeir var sakaður um hafa notað án leyfis í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. 

Við þessu skrifaði Sigmundur að Ásgeir yrði að una því að fjallað yrði um störf hans með gagnrýnum hætti vegna stöðu hans sem opinber persóna. 

„Telst það til tíðinda þegar einn æðsti ráðamaður þjóðarinnar er vændur um ritstuld á ferli sínum sem fræðimaður og síðar yfirmaður á lykilstofnun í landinu,“ segir í pistli Sigmundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert