Býst við gríðarlegu álagi næstu vikur

Runólfur Pálsson, forstjóri Landpítala.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landpítala. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það er gríðarlega mikið álag og það má búast við að svo verði áfram næstu vikur,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, um stöðuna á bráðamóttökunni.

„Það var fyrirsjáanlegt að þetta yrði mjög erfitt, enda alvarlegt ástand á bráðamóttökunni vegna manneklu og óhóflegra verkefna, og það er búið að vera þannig áfram, en það hefur gengið ótrúlega vel að halda þessu gangandi og það er dugnaður og útsjónarsemi starfsfólks sem gerir það að verkum.“

Spurður um aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til nefnir Runólfur helst bráðadagdeild lyflækninga sem tekin var í notkun fyrr í mánuðinum.

„Við höfum síðan reynt að endurskipuleggja mönnunina eftir því sem við getum og fjölga læknateymum sem eru að sinna sjúklingum í tengslum við bráðamóttökuna.“

„Við höfum getað haldið þessu á floti og það er frábærri frammistöðu hjá starfsfólkinu að þakka,“ segir Runólfur um árangur af aðgerðunum.

Úrræði utan spítalans muni létta undir

Hver eru næstu skref?

„Við bindum vonir við að núna í ágúst og í september komi til sögunnar úrræði fyrir einstaklinga sem þurfa ekki lengur meðferð á spítalanum en eru hérna engu að síður vegna þess að það skortir bæði hjúkrunarrými og endurhæfingarþjónustu utan spítalans fyrir aldraða einstaklinga sem eru færniskertir.

Við eigum von á því að það muni þá létta undir þegar við getum fært slíka einstaklinga til annarra stofnana. Svo þegar komið er fram í miðjan ágúst eigum við von á því að mönnunin batni, af því að þá er fólk að koma til baka úr orlofi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert