Ekki sama hlaupaleið og síðast

Breytingar verða á Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ár þar sem hlaupið, sem hefur síðastliðin ár byrjað á Lækjargötu í miðbæ Reykjavíkur, byrjar nú á Sóleyjargötu við hliðina á Hljómskálagarðinum. Þá verða örlitlar breytingar gerðar á hlaupaleiðinni til viðbótar. 

„Fólkið safnast saman á Sóleyjargötu og svo verður hlaupið ræst á hringtorginu rétt hjá BSÍ,“ segir Silja Úlfarsdóttir, upplýsingarfulltrúi Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka, í samtali við mbl.is.

Hlaupið fer fram 20. ágúst eftir tveggja ára fjarveru vegna Covid-19 faraldurs og verða fimm vegalengdir í boði.

Reykjavíkurmaraþon 2019.
Reykjavíkurmaraþon 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlaupið er regnbogavottað

Reykjavíkurmaraþon er regnbogavottað þar sem þátttakendum gefst kostur á að skrá mismunandi fornöfn.

„Kynsegin skráningar hafa aukist til muna. Við erum mjög ánægð með að fólk sé að skrá sig undir sínum fornöfnum og við hvetjum alla til að koma, það eru allir velkomnir í Reykjavíkurmaraþon.“

Hlaupa með hjartanu á ný

„Við erum mjög spennt að fá að halda venjulegt Reykjavíkurmaraþon. Við höfum gert smá breytingar á skemmtiskokkinu, en við höfum verið með þriggja kílómetra skemmtiskokk og svo höfum við verið með barnahlaup.

Núna teljum við það vera fjölskylduvænna að hafa eitt skemmtiskokk, en það verður í boði að taka tvær leiðir í þessu skemmtiskokki, þar sem yngri þátttakendum gefst kostur á að stytta sér leiðir,“ segir hún í samtali við mbl.is og bætir við að meðfram hlaupinu gefist þátttakendum kostur á að sjá ýmis skemmtiatriði á leiðinni.   

„Það verður skemmtilegt í Reykjavíkurmaraþoninu og sjúklega gaman. Það er langt síðan við höfum öll hist og reynt að ná okkar markmiðum, hlauparar og ekki hlauparar sem að hlaupa með hjartanu og fagna fyrir sín félög og styrkja aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert