Evrópskir eldmaurar nema hér land

Myndir af eldmaurum sem fundust í Reykjavík sumarið 2021, á …
Myndir af eldmaurum sem fundust í Reykjavík sumarið 2021, á vettvangi. Ljósmynd/Marco Mancini

Evrópskir eldmaurar (Myrmica rubra) eru sestir að á Íslandi. Marco Mancini, Andreas Guðmundsson Gähwiller og Arnar Pálsson skrifa ritrýnda grein um eldmaurana í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins. Þeir stofnuðu svonefnt mauragengi sem heldur úti vefsetrinu maurar.hi.is.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Bú evrópskra eldmaura fannst í garði í póstnúmeri 105 í Reykjavík í apríl 2021. Maurarnir sáust fyrst tveimur til þremur árum áður. Tvö bú fundust í garðinum og voru í þeim samtals tvær drottningar og um 5.000 þernur. Búin voru grafin upp og maurunum eytt. Greining bendir til að eldmaurarnir hafi komið frá Þýskalandi eða nágrannalandi þess. Úr púpum sem fundust komu karlmaurar. Það bendir til þess að búin hafi verið fullþroskuð og maurarnir getað dreift sér.

Fylgjast þarf með maurunum

„Höfundar greinarinnar telja að tilvikið þarfnist sérstakrar athygli viðeigandi yfirvalda, því tegundin M. rubra hefur dreifst til margra heimsálfa, er talin ágeng á mörgum svæðum og getur verið fólki til ama. Höfundar mæla með því að málinu verði fylgt eftir, svo sem með athugunum í garðinum sem um ræðir næstu sumur. Einnig væri viðeigandi að láta fólk í hverfinu vita, með dreifiblöðum eða viðvörun á samfélagsmiðlum, að mögulega sé vágestur á ferðinni. Ef fleiri bú finnast, telja höfundar brýnt að þeim verði einnig eytt og þeir staðir sem þau finnast á verði vaktaðir yfir tveggja ára tímabil.“

Maurar hafa breiðst út vegna ferðalaga og verslunar. Mynstur farleiða og landnáms þeirra bendir til þess að eyjar Norður-Atlantshafsins geti orðið næsti vettvangur landnáms maurategunda. Það, að sex maurategundir fundist nýlega í Færeyjum, styður þessa tilgátu.

Hægt er að lesa meira um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert