Staðan verður þung um verslunarmannahelgina

Verið er að undirbúa mönnun fyrir verslunarmannahelgina.
Verið er að undirbúa mönnun fyrir verslunarmannahelgina. mbl.is/Jón Pétur

Óvissustig ríkir áfram á sjúkrahúsinu á Akureyri og er staðan töluvert þung á gjörgæsludeild, að sögn Sigurðar E. Sigurðssonar, framkvæmdastjóra lækninga á sjúkrahúsinu.

„Tveir sjúklingar eru með Covid á gjörgæslu og það hefur verið erfitt að manna hana, við höfum þó fengið aðstoð og gátum kallað inn fólk. Við erum núna að undirbúa verslunarmannahelgina sem verður sennilega nokkuð þung, allavega hvað varðar gjörgæsluna,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

„Á öðrum deildum eru eiginlega öll rúm full og margt fólk í sumarleyfi, þannig að þetta er svona tími sem er alltaf töluvert erfiður.“

Sjúkrahúsið var sett á óvissustig í síðustu viku, meðal annars vegna aukins álags og mönnunarvanda á gjörgæsludeild.

Bráðamóttakan stendur nokkuð vel

Miðað við þá stöðu sem nú er uppi reiknar Sigurður með að óvissustig verði í gildi eitthvað lengur.

„Þangað til við fáum þokkalega niðurstöðu og lausn fyrir gjörgæsluna næstu helgi höldum við því, en við fylgjumst með því daglega, við ætlum ekki að vera með það lengur en við nauðsynlega þurfum.“

Spurður hvort óvissustig verði yfir verslunarmannahelgina segir Sigurður erfitt að spá fyrir um það.

„Það fer svolítið eftir því hvernig gengur að leysa mönnunarmálin fyrir helgina, það er alltaf mikið um að vera hérna og sérstaklega á bráðamóttökunni og búið er að leysa það þannig að hún er nokkuð vel stödd.

Ef það tekst að finna góða lausn með gjörgæsluna og ekki er einhver krísa á öðrum deildum munum við örugglega endurskoða það í lok vikunnar.“

Einn sjúklingur sendur suður

„Við höfðum samband við Landspítalann og heilbrigðisráðuneytið fyrir helgi og gátum sent einn sjúkling suður sem annars hefði verið á gjörgæslunni hjá okkur.

Sigurður E. Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga og handlækningasviðs á Sjúkrahúsinu á …
Sigurður E. Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga og handlækningasviðs á Sjúkrahúsinu á Akureyri. mbl.is

Þó það sé aldrei ánægjulegt að þurfa að senda sjúklinga landshorna á milli munaði það gríðarlega miklu fyrir okkur. Við fundum fyrir velvilja í ráðuneytinu um að allir legðust á eitt til að láta þetta ganga upp,“ segir Sigurður.

„Starfsfólkið á heiðurinn af þessu öllu saman, fagmennskan og ósérhlífnin er bara með eindæmum. Það er reiðubúið að stíga upp enn einu sinni og halda úti þeirri lágmarksþjónustu og bráðaþjónustu sem við þurfum að vera með, og það verður ekki sagt nógu oft.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert