Gróðursetja 130 þúsund tré fyrir 210 íbúðir

Samninginn undirrituðu Reynir Kristinsson, formaður stjórnar Kolviðar og Róbert Róbertsson, …
Samninginn undirrituðu Reynir Kristinsson, formaður stjórnar Kolviðar og Róbert Róbertsson, framkvæmdastjóri Festis. Ljósmynd/Aðsend

Fasteignaþróunarfélagið Festir hefur undirritað samning við kolefnissjóðinn Kolvið um að kolefnisbinda 210 íbúðir í Vesturbæ Reykjavíkur. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Festi og segir þar að af þessum sökum verði 130.450 tré gróðursett á fjórum stöðum á landinu á þessu ári. 

Fyrst til að kolefnisbinda heila framkvæmd

Markmið samningsins er að binda kolefni sem fellur til við uppbyggingu Festis á byggingarreitnum. Festir verður fyrsta félagið sem kolefnisbindur heila framkvæmd og áætlaða búsetu íbúa á svæðinu, alls yfir 60 ára tímabil. 

„Festir hefur lagt mikinn metnað í hönnun og þróun þessa byggingarreits og það var því fljótt ljóst að við myndum vilja reyna að kolefnisbinda reitinn eins og kostur er,“ er haft eftir Róberti Aroni Róbertssyni, framkvæmdastjóra Festis, í tilkynningu. 

Notuð var lífsferilsgreining frá Mannviti til að reikna kolefnisfótsporið í tonnum og stuðst við alþjóðlegar reikningsreglur til að ákveða hversu mörg tré þyrfti að gróðursetja á móti. 

Haft er eftir Reyni Kristinssyni, formanni stjórnar Kolviðar, að samningurinn sé einn sá stærsti sem Kolviður hefur gert og að Festir sýni mikla ábyrgð með samningnum, þar sem töluverður hluti kolefnislosunar komi frá byggingariðnaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert