Hyggst kæra hagfræðiprófessor til siðanefndar HÍ

Þórólfur Matthíasson til vinstri og Birkir Leósson til hægri.
Þórólfur Matthíasson til vinstri og Birkir Leósson til hægri. Samsett mynd

Birkir Leósson endurskoðandi hyggst kæra Þórólf Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, til siðanefndar HÍ fyrir ófrægingu en þeir hafa staðið í ritdeilum í kjölfar kaupa Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi hf. í Grindavík.

Birkir staðfesti þetta í samtali við mbl.is en hann greindi fyrst frá þessu í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag en ritdeilur þeirra hafa farið fram á þeim vettvangi.

Birkir segir prófessorinn hafa sakað sig um að hafa staðfest rangan ársreikning sem notaður hafi verið til fjársvika. Þar að auki hafi prófessorinn mistúlkað orð hans og ítrekað haldið fram ósannindum. Hyggst hann því leggja fram kæru til siðanefndar HÍ.

„Getur prófessor við Háskóla Íslands leyft sér hvað sem er,“ spyr Birkir í samtali við mbl.is. 

Sagði eigið fé vanmetið

Kaup Síldarvinnslunnar á Vísi vöktu mikla athygli en margir höfðu m.a. áhyggjur af samþjöppun í sjávarútveginum. 

Þórólfur var einn þeirra sem tók þátt í umræðunni um kaupin en hann birti grein þann 15. júlí þar sem hann sagði eigið fé útgerðarfyrirtækja verulega vanmetið í efnahagsreikningum þeirra og sakaði hann jafnframt endurskoðendur þeirra um að staðfesta eignarstöðu sem væri í raun skáldskapur.

Tekur hann fram að þrátt fyrir að eigið fé Vísis hafi numið 6,8 milljörðum króna í lok árs 2020 samkvæmt efnahagsreikningi hafi það nú verið selt á ríflega 20 milljarða. Leiddi hann jafnframt líkum að því að skekkjan hafi verið til komin vegna afsláttar af veiðigjöldum sem fyrirtækið fékk. 

Þá sagði hann jafnframt að endurskoðendur Vísis hafi undirritað efnahags- og rekstrarreikning félagsins fyrir árið 2013 þrátt fyrir að hann hafi ekki endurspeglað raunverulegt virði fyrirtækisins. Þetta telur hann þá hafa verið meðvitaða um.

Hafi hundsað 5. grein ársreikningslaga

Birkir, sem kom að ársreikningi Vísis hf. árið 2013, svaraði þessum ásökunum í kjölfarið í grein sem birtist sex dögum síðar. Þar kveðst hann hafa hrakið gagnrýni prófessorsins sem hann telur ekki standast. 

„Um ársreikninga gilda lög, reglur og alþjóðlegir staðlar og um endurskoðun gilda allt önnur lög, reglur og alþjóðlegir staðlar. Í áritun endurskoðanda í umræddum ársreikningi kemur ekkert það fram sem prófessorinn telur sig hafa eftir okkur í grein sinni. Niðurstaða áritunarinnar var að ársreikningurinn gæfi glögga mynd í samræmi við lög um ársreikninga. Hvergi vísar prófessorinn til laga eða staðla sem ættu að hafa verið virt að vettugi,“ segir meðal annars í grein Birkis. 

Þórólfur svaraði endurskoðandanum fullum hálsi í grein sem birtist á þriðjudaginn. Segir hann m.a. þá örfáu einstaklinga sem bera ábyrgð á endurskoðun reikninga íslenskra útgerðafyrirtækja hafa þá venju að hundsa 5. gr. ársreikningslaganna. Þá sakar hann jafnframt endurskoðunarfyrirtæki almennt um að blanda saman endurskoðun og ráðgjöf.

Vísar ásökunum á bug

Birkir vísar því á bug að hann hafi gerst sekur um einhvers konar lögbrot. Þá segir hann Þórólf ítrekað hafa mistúlkað orð sín úr fyrri greininni í Fréttablaðinu og haldið fram ósannindum.

„Það sem stjórnendur segja í ársreikningi, það telur hann endurskoðendur vera að segja. Þó að það sé bent á það þá heldur hann áfram að fullyrða það. Svo er hann aftur og aftur og aftur að fullyrða að ég hafi sagt eitthvað sem ég sagði ekkert.“

Birkir hefur því ákveðið að leita til siðanefndar Háskóla Íslands enda sé ótækt að prófessor við skólann sé að rægja menn opinberlega.

Ekki náðist í Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor við vinnslu greinarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert