25 þúsund krónur nóttin með klósett við rúmgaflinn

Ódýrasta gistingin á Airbnb helgina 5.-7. ágúst er stúdíóíbúð þar …
Ódýrasta gistingin á Airbnb helgina 5.-7. ágúst er stúdíóíbúð þar sem klósettið er um metra frá rúminu. Ljósmynd/Airbnb

Ódýrasta gistingin sem hægt er að bóka í Reykjavík í gegnum fyrirtækið Airbnb yfir helgina 5.-7. ágúst, kostar 25.838 krónur nóttin. Um er að ræða stúdíóíbúð þar sem klósettið er staðsett við hliðina á rúminu.

Blaðamaður mbl.is tók í morgun saman ódýrustu gistimöguleika ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu í ágúst.

Um helgina 5.-7. ágúst verða Hinsegin dagar í fullum gangi í Reykjavík og því nóg um að vera í borginni. Áðurnefnd stúdíóíbúð er ódýrasta gistingin í miðbænum á þessum tíma. Hægt er að spara sér tæpar tvö þúsund krónur og leigja herbergi í Hjallahverfi í Kópavogi en það er það ódýrasta sem er í boði á höfuðborgarsvæðinu umrædda helgi.

Ódýrasta gistingin á Booking.com þessa sömu helgi er herbergi í miðbænum með sameiginlegu baðherbergi á 26.662 krónur fyrir nóttina. Á heimasíðunni stendur að 93% af gistingu þessa helgi sé uppbókuð og má ætla að svipað sé uppi á teningnum hjá Airbnb.

Ódýrast í Breiðholti

Helgina 12.-14. ágúst er hægt að leigja herbergi með klósettaðstöðu án sturtu í Hlíðunum á 13.057 krónur nóttina. Ódýrasta gistingin í Reykjavík er þó í Breiðholtinu á 12.256 krónur fyrir herbergi með sameiginlegri salernisaðstöðu og er það jafnframt ódýrasta gistingin á höfuðborgarsvæðinu þessa helgi.

Á vef Booking.com er ódýrasta gistingin sömu helgi 24.681 krónur fyrir nóttina á Hotel Cabin í Borgartúni. Morgunmatur er þar innifalinn og baðherbergi til einkanota.

Hotel Cabin í Borgartúni.
Hotel Cabin í Borgartúni. Ljósmynd/Booking.com

98% uppbókað

Helgin 19.-21. ágúst er nánast alveg uppbókuð á Booking.com. Þar stendur að 98% gistinga séu uppbókaðar þessa helgi. Þessa sömu helgi verður Menningarnótt haldin. Ódýrasta gistingin sem hægt er að fá í gegnum Booking.com er tveggja herbergja íbúð í Borgartúni á 149.830 krónur fyrir helgina eða 74.915 krónur fyrir hverja nótt.

Fjögurra herbergja íbúð nálægt miðbænum kostar aðeins 24.376 krónur fyrir …
Fjögurra herbergja íbúð nálægt miðbænum kostar aðeins 24.376 krónur fyrir nóttina á Airbnb. Skjáskot/airbnb.com

Í gegnum Airbnb er ódýrast að leigja fjögurra herbergja íbúð nálægt miðbænum á 24.376 krónur fyrir nóttina. Þessa helgi er því rúmlega þrisvar sinnum dýrara að bóka gistingu í gegnum Booking.com heldur en Airbnb.

Helgina 26.-28. ágúst er ódýrasta gistingin á höfuðborgarsvæðinu, sem hægt er að bóka í gegnum Airbnb, stúdíóíbúð á Kársnesinu fyrir 23.968 krónur nóttina. Þess má geta að fjögurra herbergja íbúðin sem er laus helgina 19.-21. ágúst er einnig laus á sama verði fyrir þessa helgi. 

Ódýrasta gistingin á Booking.com þessa sömu helgi er í koju í farfuglaheimili í Skógarhlíð. Þar kostar nóttin 6.925 krónur en deila þarf herbergi með sjö öðrum einstaklingum. Ef ferðamenn ætla sér ekki að deila herbergi með ókunnugu fólki er ódýrasti kosturinn á höfuðborgarsvæðinu í gegnum Booking.com á hóteli í Hlíðarsmára þar sem nóttin kostar 19.424 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert